144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nógu erfitt var að fá hæstv. forsætisráðherra til að koma og taka þátt í sérstökum umræðum varðandi málaflokka hans á síðasta þingvetri og nú bregður svo við að hæstv. forsætisráðherra ætlar ekki einu sinni að svara spurningum þó að hann sé á staðnum, þetta er alveg nýtt, og bregður fyrir sig þingsköpum í því efni. Það finnst mér mjög skapandi nálgun á þingsköp og ég mundi alla vega óska þess að þá væri útskýrð sú afstaða hans að vera frekar í símanum hér og svara ekki spurningum heldur en að koma upp í pontu og lýsa viðbrögðum sínum gagnvart mjög málefnalegum spurningum. Hvar stendur í þingsköpum að þetta sé á einhvern hátt skiljanlegt viðbragð af hans hálfu? Hvaða stoð á þetta í þingsköpum?

Það stendur á lista sem við erum hér með að forsætis- og dómsmálaráðherra svari spurningum. Forsætisráðherra (Forseti hringir.) hefur sópað til sín alls konar málaflokkum í ráðuneyti sitt og þó að hann hefði ekki gert það ber honum samt að svara spurningum sem varða rekstur á ráðuneyti hans.