145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um samdrátt á aðalskrifstofunni. Ég man ekki alveg tölurnar en það varð mikill samdráttur, eða niðurskurður getum við sagt, á aðalskrifstofunni og núna er verið að bæta í. Er í raun nóg að gert? Ég er bara að velta fyrir mér vinnuálagi og öllum þeim verkefnum sem þetta ráðuneyti vinnur að.

Ef ég man rétt hefur verið tiltölulega vel haldið á fjármálunum í ráðuneytinu, lítið komið inn á fjáraukalög og lítið um fjárlagaliði sem fara umfram fjárheimildir, en ég hef heyrt út undan mér í gegnum tíðina að það sé mikið álag í þessu ráðuneyti. Hver er afstaða ráðherrans til þess?

Ég ætlaði að spyrja út í þróunarmálin en hæstv. ráðherra svaraði því mjög vel í svari sínu til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Varðandi Þýðingamiðstöðina gerði ég það að umtalsefni í nefndarálitinu við fjárlagaumræðuna í fyrra hve lítil framsýni mér fannst í því þegar framlög til Þýðingamiðstöðvarinnar voru skorin verulega mikið niður sem gerði það að verkum að upp hrúguðust EES-tilskipanir sem við gátum ekki innleitt. Í fyrra var aftur aukið í og ég tel farsælla að það sé stefnumótun þótt ekki væri nema til fimm ára.

Ég er ánægð með að verið sé að bæta í og sérstaklega finnst mér gott ef fólki úti á landi er gert kleift að sinna þessum störfum. Mér finnst þetta mun smekklegri og betri aðferð en flutningurinn á Fiskistofu sem var groddaleg aðferð við að færa störf út á land. Mér finnst þetta vel gert.

Hæstv. ráðherra er í raun búinn að svara öðru, en ég vildi sjá að við hækkuðum framlög til þróunarmála, sérstaklega núna þegar betur árar hjá okkur. Ef ég man rétt svaraði hæstv. ráðherra því til að hann mundi sjá þetta gerast hægt og rólega en sæi fyrir sér að við mundum hækka framlögin á næstu árum eftir því sem því verður komið við.