149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fínar spurningar og get tekið undir með honum að ég held einmitt að það sé veikleiki í fjárveitingum okkar til flugvalla sem stafi í það minnsta frá hruninu. Það hafa bæði orðið ýmsar breytingar á tekjugrunninum frá þeim tíma þar sem mjög mörg gjöld voru felld niður og farið í einföldun sem var ábyggilega nauðsynleg og skýr. Svo voru líka teknir fjármunir út úr Isavia til að fjármagna aðra hluti sem hafa runnið í ríkissjóð. Ef ég man rétt er uppsöfnuð fjárhæð einhvers staðar á bilinu 3,5–4 milljarðar. Ef þeir hefðu runnið til innanlandsflugsins á þessum tíma værum við ekki að tala um þann vanda hér. Þá værum við í sömu öfundsverðu stöðu og kollegar mínir á Norðurlöndum. Ég var á ráðstefnu í sumar, talaði um tekjugrunna í mismunandi samgöngukerfum og þá sögðu þeir allir: Já, varðandi innanlandsflugið, við þurfum ekki að ræða það, það sér um sig sjálft.

Það er einmitt hluti af þessari eigandastefnu sem hefur kannski skort hjá Isavia, hjá stjórnvöldum, að setja stofnunum og fyrirtækjum ríkisins sérstaka eigandastefnu. Þetta verkefni er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins sem fer með hlutabréfið í Isavia og okkar sem erum þá með faghlutann í samgönguráðuneytinu. Þar inni eru alls konar hugmyndir sem gætu tryggt rekstrargrundvöll flugvallanna í landinu, breytt þeim umtalsvert, hvaða leið sem væri farin, hvort sem farin yrði sú leið að Isavia yfirtæki fleiri flugvelli í beinum rekstri eins og Keflavík og Reykjavík, Akureyri og Egilsstaði, t.d. alla millilandaflugvellina, og síðan yrði gerður þjónustusamningur um hina, eða hvort menn færu þá leið sem sums staðar hefur líka verið farin, að gera arðsemiskröfu á Isavia sem síðan væri nýtt til að styðja við flugið.

Nú náði ég ekki að svara öllum spurningunum af því að þær voru fjölmargar (Forseti hringir.) og áhugaverðar en skal reyna að koma því að í seinna svari.