151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tel hugmyndir Miðflokksins um aðgerðir vegna faraldursins algerlega óraunhæfar. Á að afnema tryggingagjaldið? Hvaða tekjustofn á þá að standa undir atvinnuleysistryggingum og fæðingarorlofi? Eða á bara að skera það niður? Miðflokkurinn þarf að svara því, þegar hann kemur hér upp og talar um að afnema tryggingagjaldið, hvernig nákvæmlega eigi að fjármagna þau útgjöld sem eru fjármögnuð með þeim skattstofnum. Eða á bara að setja atvinnuleitendur og atvinnulaust fólk út á guð og gaddinn? Ég trúi því ekki að það geti verið hluti af sóknaráætlun Miðflokksins í þessu máli.

Hv. þingmaður talaði um vöxt í útgjöldum forsætisráðuneytisins. Þá ætla ég að fara yfir það. Lög um Stjórnarráðið hafa gert ráð fyrir tilteknum fjölda aðstoðarmanna, allt frá árinu 2013. Þeim lögum hefur ekki verið breytt og ekki farið út fyrir þær lagaheimildir. Málaflokkur jafnréttismála var ekki í forsætisráðuneytinu. Það er ekki rétt. Jafnréttismálin voru flutt frá félagsmálaráðuneyti yfir í forsætisráðuneyti með forsetaúrskurði. Að sjálfsögðu fjölgaði þá starfsmönnum í forsætisráðuneytinu. Það þarf engum að koma á óvart og tengist því að þessi málaflokkur hefur fengið nýtt vægi í Stjórnarráðinu og er nú unnið við hann þvert á öll ráðuneyti. Það er hins vegar rétt að útgjöld hafa aukist og það er fyrst og fremst vegna nýrrar viðbyggingar við Stjórnarráðið. Ég þekki hug a.m.k. formanns Miðflokksins til þeirrar viðbyggingar. Ég ætla ekki út í nákvæma umræðu um hana og það má deila um það hvort rétti tíminn sé til að gera það. Ég myndi segja að efnahagslega væri einmitt rétti tíminn til að fara í slíka opinbera framkvæmd, viðbyggingu við Stjórnarráðið. Við getum haft ólíkar skoðanir á því hvernig hún er. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta á eftir að vera hagkvæmara til lengri tíma þar sem ráðuneytið leigir núna húsnæði í miðborg Reykjavíkur í stað þess að vera í sínu eigin. (Forseti hringir.) Til lengri tíma, alveg eins og ég styð nýbyggingu hjá Alþingi, held ég að þetta verði hagkvæmara.