151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög mikilvægar spurningar sem hérna eru bornar upp og bent á gríðarlega mikilvægan þátt í þessari áætlunargerð hér, sem leiðir af hallarekstrinum. Spurningin varðar það í raun og veru: Hvernig ætlum við að fjármagna þetta og hvað mun það kosta okkur til lengri tíma litið?

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við höfum á undanförnum árum notið hagstæðari vaxtakjara. Það leiðir annars vegar af mjög bættri lánshæfiseinkunn ríkisins og síðan hefur það leitt af alþjóðlegri lækkun vaxta auk þess sem vextir hér innan lands hafa verið að lækka. Ég vil meina að vextir hafi verið að lækka og hafi verið sögulega séð tiltölulega hóflegir innan lands vegna þess að okkur hefur gengið vel í efnahagsstjórninni. Við höfum verið með gott samspil peningastefnu og ríkisfjármála.

Hér er spurt beint út: Kemur til greina að taka erlend lán og í hvaða mæli? Ég myndi svara því þannig að það kemur til greina. Við höfum á undanförnum árum ekki haft þörf fyrir erlendar lántökur til að fjármagna ríkisútgjöld. Við höfum einmitt frekar verið að greiða upp lán hér heima fyrir og vorum komin með skuldahlutföllin mjög langt niður. Við þær aðstæður hefði verið einkennilegt að fjármagna rekstur ríkisins með erlendum lánum. Hins vegar eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að treysta á innlenda skuldabréfamarkaðinn og innlenda fjármagnsmarkaðinn fyrir fjármögnun ríkisins og þess vegna er ekki hægt að útiloka að við munum í einhverjum mæli treysta á erlenda lántöku. En við ættum að reyna að halda því í lágmarki vegna þess að til lengri tíma litið og fyrir þjóðarbúið í heild er betra að skuldirnar séu hér heima fyrir.