152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega alltaf spurning á forsendum hverra sáttin er. Mér hefur til að byrja með alltaf þótt það sérkennilegt að það skuli einmitt vera flokkarnir sem tala mest um frelsi og markaðshagkerfi sem leggjast gegn því að við nýtum markaðinn til að ákvarða verðið. Í sjálfu sér finnst mér það vera rétt leið að gera það. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það þarf að ná víðtækri sátt um það þannig að ég er alveg opinn fyrir öðrum útfærslum. En bara til að vinda mér strax í spurninguna sjálfa: Nei, ég held að það eigi ekki að gera þetta í gegnum skattkerfið, einfaldlega vegna þess að þetta er ekki skattur, þetta er greiðsla fyrir aðgang að mjög takmarkaðri auðlind sem fáum gefst tækifæri til að nýta. Þetta er ekkert öðruvísi en þegar verktakar eru að bjóða í byggingar eða brýr eða vegi. Um er að ræða eftirsóknarverð verkefni fyrir fyrirtæki og það þykir öllum sjálfsagt, og það er beinlínis kveðið á um það, að slíkt beri að bjóða út. Af hverju ætti þetta að vera öðruvísi? Ég svara þessu ekki með öðru en því að í fullkomnum heimi þætti mér réttast að við byðum þetta upp á markaði og við getum svo fundið ásættanlegan tíma og annað til að skapa fyrirsjáanleika, það er svo aftur allt annað mál. Ég tel að þetta sé sem sagt gjald fyrir notkun á auðlind en ekki skattur.