155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[09:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég veit að það er ekki hægt að fara yfir svona víðtækan málaflokk á svona stuttum tíma. En ég lýsi yfir miklum áhuga hjá allsherjar- og menntamálanefnd á að eiga þetta samtal við hæstv. ráðherra. Mig langaði líka að koma inn á grunnskólamálin. Ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra fyrir það að hér eru helstu markmið ársins alveg skýr. Markmið eitt er að styrkja lestrarfærni grunnskólanema, markmið tvö að styrkja færni grunnskólanema í stærðfræði og náttúrufræði og markmið þrjú er að bæta líðan og auka gæði menntunar í leik- og grunnskólum og í starfi frístundaheimila.

Þetta er risastór málaflokkur, eins og hv. þm. Dagbjört Hákonardóttir kom inn á varðandi menntamálin, sem hefur verið mikið til umræðu í sumar. Ég lýsi aftur yfir miklum áhuga hjá okkur í allsherjar- og menntamálanefnd á því að taka þetta samtal á dýptina, bæði við ráðherra en ekki síður við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem við munum heimsækja á næstu vikum. Það er ljóst að samkvæmt mælingum OECD erum við með eitt af dýrustu grunnskólakerfum í Evrópu en því miður eitt af þeim (Forseti hringir.) grunnskólakerfum sem eru að sýna hvað minnstan árangur. Hvernig hyggst ráðherra snúa þessari þróun við?