155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:59]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Á kjörtímabilinu hefur átt sér stað mikil og góð vinna innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins vegna þeirra málaflokka sem við berum ábyrgð á samkvæmt forsetaúrskurði. Ég mun byrja hér, virðulegi forseti, á málefnasviði 18. Framtíðarsýn stjórnvalda fyrir þann málaflokk, er varðar menningu og listir, er eitt mjög augljóst markmið um að Ísland skipi sér í fremstu röð á þessum sviðum. Við leggjum einnig mikla áherslu á að allir landsmenn eigi að geta aukið lífsgæði sín með þátttöku í öflugu og fjölbreyttu starfi á þeim vettvangi.

Í fjárlögum 2024 var heildarútgjaldarammi málefnasviðsins um 19,6 milljarðar en heildarútgjaldaramminn hækkar um 650 milljónir og fer í 20,2 milljarða. Helstu áskoranir og tækifæri á næstu árum eru margvísleg. Þar má m.a. nefna að á árinu 2025, er varðar safnamál, verða Þjóðskjalasafninu tryggðar 80 millj. kr. varanlega til að geta leigt nýtt varðveisluhúsnæði vegna aukningar í skjalaskilum hjá skilaskyldum stofnunum. Ásamt því er verið að tryggja nýjar 100 milljónir sem eru einskiptisframlag til að styrkja innviði safnsins.

75 millj. kr. framlag verður veitt til menningarmála sem samþykkt var í fjármálaáætlun 2025–2029 til að stofna Þjóðaróperu í samræmi við stjórnarsáttmála og verður hún til húsa í Þjóðleikhúsinu. Listamannalaun — 125 millj. kr. framlag verður veitt til menningarmála sem samþykkt var í fjármálaáætluninni og munu starfslaun listamanna hækka. Ásamt því verða stofnaðir tveir nýir sjóðir, launasjóður kvikmyndahöfunda og Vegsemd, fyrir listamenn 67 ára og eldri. Þetta er mikið heillaskref fyrir íslenskt menningarlíf. Eins er gert ráð fyrir 48 millj. kr. til viðbótar inn í tónlistina eftir að búið var að stofna tónlistarmiðstöð og verið að efla tónlistarsjóð. Varðandi kvikmyndirnar er gert ráð fyrir að veita tímabundið framlag að fjárhæð sem nemur 3,6 milljörðum til endurgreiðslu til kvikmyndagerðar til að mæta fyrirliggjandi vilyrðum um endurgreiðslu á árinu 2025 og þetta endurspeglar klárlega þá grósku og kraft sem ríkir í kvikmyndagerð hér á landi.

Áfram verður unnið með máltækni eins og við höfum verið að gera. Þar hefur náðst gríðarlegur árangur að setja tungumálið okkar inn í þessi stóru mállíkön og hægt er að nálgast tungumálið okkar í helstu gervigreindarforritum í heimi.

Varðandi ferðaþjónustu þá er framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis milli efnahagsumhverfis og samfélagslegra þátta. Í fjárlögum 2024 var útgjaldarammi málefnasviðsins 2,2 milljarðar kr. og hækkar nú um 250 milljónir og fer inn í ferðamálastefnu og til að tryggja framkvæmd hennar m.a. Einnig er verið að auka fjármuni til flugþróunarsjóðs en þar koma inn nýjar 100 millj. kr. og við höfum auðvitað notið þess að nú er komið millilandaflug víðar um landið en bara í Keflavík og skiptir þetta gríðarlega miklu máli til þess að dreifa ferðamönnum um landið.

Á málefnasviði 19, sem er á sviði fjölmiðla, hækkar útgjaldaramminn um rúmar 340 milljónir og fer að mestu í RÚV og fjölmiðlastefnu.

Á málefnasviði 16, sem eru neytenda- og samkeppnismál, hækkar útgjaldaramminn um 40 milljónir og við munum leggja mikla áherslu á neytenda- og samkeppnismál og mun ég kynna hér neytendastefnu.