155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[15:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég leyfi mér að taka tölvuna með mér upp í púlt einfaldlega vegna þess að ég er með Morgunblaðið hér opið og mig langaði til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í málaflokk sem heyrir undir hann og er til umfjöllunar hér í Morgunblaðinu í dag sem varðar fjölda barna á biðlistum og biðlistum í heilbrigðiskerfinu gegnumgangandi og að einhverju marki líka biðlistum sem heyra undir hæstv. barnamálaráðherra. Báðir sitja þessir ráðherrar saman í ríkisstjórn og tilheyra meira að segja sama flokki þannig að ég ætla að leyfa mér að ræða um málaflokkinn í heild sinni jafnvel þó að það sé að einhverju marki skörun á milli ráðuneyta af því að það skiptir auðvitað máli að við séum að ræða málið heildstætt og ég geri einfaldlega ráð fyrir því að þessir tveir hæstv. ráðherrar tali saman. Ráðherra þekkir auðvitað forsöguna sem eru bréfaskriftir umboðsmanns barna, þar sem hún er að viðra, og á miklar þakkir skildar fyrir það, áhyggjur sínar af stöðu barna á biðlistum í heilbrigðiskerfinu öllu og að einhverju marki í hinu félagslega kerfi líka og hversu lengi börn eru á biðlista. Það að börn á Íslandi sé að bíða eins lengi eftir þjónustu og raun ber vitni er auðvitað algjörlega óþolandi. Mig langaði hér í fyrri atrennu að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann túlki þetta fjárlagafrumvarp og þau fjárframlög sem liggja fyrir í heilbrigðisráðuneytinu annars vegar og barnamálaráðuneytinu og að einhverju marki félagsmálaráðuneytinu með þeim hætti að staðan sé að einhverju leyti að batna hvað varðar hagsmuni þessara barna.