155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[18:03]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Bara svo að það sé tekið fram þá framlengdum við frest í samráðsgátt um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að ósk náttúruverndarsamtaka. Það segir sig sjálft með svona stórt verkefni að það þurfa margir að koma að því. Til þess er nú leikurinn gerður. En auðvitað er það þannig, og það er ekkert leyndarmál, að við tókum það fyrirkomulag sem aðrir hafa unnið eftir, við vorum ekki að finna upp hjólið. Í orði kveðnu þá tala menn oft um að læra af Norðurlöndunum og við vorum að læra af Norðurlöndunum, það er ekkert flóknara en það, þegar kom að þessu vinnulagi.

Varðandi flokksráðið þá er það bara þannig að það eru áhyggjur hjá mörgum, kemur m.a. fram í þessum þingsal, af því að við séum að fara á einhvern þann stað sem gerir okkur erfitt fyrir að vera með samkeppnishæft atvinnulíf. Og mönnum finnst líka, og ég held að það sé réttmætt, að það séu nokkuð ruglingsleg skilaboð sem berast um hvað eigi að gera og hvað eru skuldbindingar og hvað eru pólitísk markmið og annað slíkt. Ég er bara ánægður með að við séum að fá tækifæri til að ræða það því það er mjög mikilvægt. Það er mikilvægt, til að skapa traust á fyrirkomulaginu og aðgerðum, að allir viti hvað það er sem við erum að skuldbinda okkur til að gera og hvað við ættum að gera og hvernig við gerum það. Ég átti samtal við nokkra hv. þingmenn hér áðan sem hv. þingmaður hlustaði á. Ég get ekki endurtekið það allt saman aftur en vek athygli á svörum mínum þar.