138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

efnahagsástandið og brottflutningur af landinu.

[12:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ef ég má túlka orð hæstv. utanríkisráðherra segir hann að 18 þúsund Íslendingar þurfi að fara áður en hann trúir því að við getum ekki staðið undir Icesave-klafanum, 18 þúsund Íslendingar, svo hann skipti um skoðun og fari að trúa því sem við segjum og fari að taka mark á gögnum. Ég verð að segja að ég hef engin gögn um það, hvorki söguleg né önnur þess efnis sem staðfesta það sem hæstv. ráðherra segir, að Ísland verði fyrsta landið til að komast út úr þessari kreppu. Ef hann mundi kynna sér skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kæmi fram að það verkefni sem við erum að fást við er gífurlega stórt og það er orð sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að fólk hafi verið tilbúið að gefa ríkisstjórninni séns og tilbúið að halda í vonina um að stjórnarandstaðan mundi kannski ná að knýja fram ásættanlega niðurstöðu í Icesave. Það getur vel verið að fólk hafi trúað því að við gætum kannski hugsanlega gert eitthvað fyrir skuldavanda heimilanna, trúað því að við gætum einhvern veginn komið í veg fyrir þær gífurlegu (Forseti hringir.) skattahækkanir sem ríkisstjórnin boðar en áttar sig á því núna að ætlun stjórnvalda er að gera nákvæmlega ekki neitt heldur setja þessa klafa á framtíðarkynslóðir á Íslandi.