146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[15:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi laxinn og þá umræðu hef ég setið fjölmarga fundi, líka sem þingmaður í hv. atvinnuveganefnd þegar þetta mál var þar, þar sem við höfum farið vel yfir þetta með villta laxastofninn í Þjórsá. Ég man eftir mörgum fundum og hef líka rætt nákvæmlega þetta atriði við núverandi verkefnisstjóra, Stefán Gíslason. Mér er sagt að á þessu stigi málsins, ef svo má segja, sé það ekki rammaáætlunar að skoða þetta nánar, nákvæmlega hvaða kostir séu í stöðunni og lausnir hvað varðar einstakar virkjanir, og að laxastigar, fleyturnar og það eigi meira heima í umhverfismati framkvæmda. Ég bara tek því.