148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

hnjask á atkvæðakössum.

313. mál
[17:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar til svars sem fram kemur á þingskjali 348 á þessu sama löggjafarþingi þar sem upplýst er um að á árunum 2013–2017 hafi atkvæðakassar í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður orðið fyrir minni háttar hnjaski í fjórum tilvikum. Hér er spurt um í hverju nákvæmlega hið svokallaða hnjask hafi falist á atkvæðakössunum sem þarna er vísað til.

Því er til að svara að í öllum tilvikum var um að ræða hnjask sem átti sér stað við flutning á þessum kössum þegar þeir rákust saman, en atkvæðakassarnir voru fluttir að morgni kjördags með sendibifreiðum frá aðsetri yfirkjörstjórnar í Reykjavík á kjörstað, eins og eðlilegt er. Atkvæðakassarnir voru síðan fluttir með sama hætti fullir atkvæðaseðlum á talningastað. Það er óhjákvæmilegt ferli við kosningar. Við flutning atkvæðakassanna í kosningunum til Alþingis árið 2016 féll einn atkvæðakassi utan í annan atkvæðakassa inni í sendibifreið sem flutti atkvæðakassana í Suðvesturkjördæmi og gekk lok annars kassans til þannig ummerki voru á innsiglum kassans, en innsiglin losnuðu þó ekki. Eftir að umboðsmenn höfðu skoðað kassann gerðu þeir ekki frekari athugasemdir við að atkvæðin væru tekin til talningar.

Hér er líka spurt um til hvaða aðgerða, eins og það er orðað, hafi verið gripið í kjölfar atvika sem leiddu til þess að þessir kassar urðu fyrir hnjaski. Því er til að svara að það er, eins og ég hef lýst, að einhverju leyti óhjákvæmilegt hnjask sem kann að verða við flutning, alveg sama hvers eðlis sá flutningur er. En samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafa starfsmenn sem koma að framkvæmd kosninganna verið hvattir til að sýna aðgæslu við meðferð og flutning atkvæðakassa.