154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, ágætisræðu. Ég vil koma inn á það sem hann nefndi hér, að kerfið eigi að vera þunglamalegt. Ég veit ekki hvort hann notaði það orð en það lá í augum uppi að hann vísaði til þess að kerfið ætti að vera þungt í vöfum og maður ætti ekki að geta tekið ákvörðun um að virkja heima hjá sér og það væri bara komið daginn eftir. Nú er þetta ekki svo. En við höfum náttúrlega þetta kerfi sem heitir rammaáætlun þar sem er búið að fara í gegnum langt og strangt kerfi þar sem er ákveðið hvað á að nýta og hvað á að vernda. Það ríkir sátt um það. En svo er hins vegar verið að reyna að koma í veg fyrir virkjunarkosti þar sem er þegar búið að ákveða að skuli vera virkjunarkostir í rammaáætlun. Engu að síður er verið að reyna að stíga ofan á það og koma í veg fyrir það. Við þekkjum dæmi þess. Ég ætla nú kannski ekki að fara í það hér. Hv. þingmaður nefndi virkjunaráform í Hverfisfljóti og ég þekki þar til og lýsti ég í minni ræðu þeirri þrautagöngu sem landeigendur þar hafa þurft að ganga í gegnum og það eru komin 23 ár. Það er búið að fylgja öllu ferlinu, umhverfismat og allt þetta sem krafist er og loksins á tuttugasta ári kemur framkvæmdarleyfið. Þá er það hópur umhverfissinna sem kærir það og málið allt sett í uppnám aftur eftir 20 ár. Mig langar bara að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að það sé bara alveg eðlilegt að það séu svona hindranir í þessu ferli sem geti varað í 20 ár. Er eðlilegt að landeigandi sem hefur áhuga á því að hefja orkuframleiðslu, þjóðinni til hagsbóta, þurfi að bíða í 20 ár?