154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:36]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þekki þetta mál ágætlega sem hv. þm. Birgir Þórarinsson er að spyrja út í en ég kýs hins vegar að fara ekki í tæplega tveggja mínútna ræðu efnislega ofan í atriði þess máls. Það get ég hins vegar og skal gera ef hv. þingmaður vill utan salar. En ég held að inntakið í spurningu hv. þingmanns hafi verið það hvort mér finnist eðlilegt að hlutir taki svona langan tíma þegar er verið að berjast í því. Þá ætla ég að svara svona: Mér finnst óeðlilegt ef upp kemur sú staða þegar fyrir liggur hugmynd sem þykir fýsileg til að mynda með afgreiðslu Alþingis í svokallaðan nýtingarflokk — það þýðir ekki að það eigi að virkja. Það þýðir að það þyki fýsilegt og megi skoða möguleikann á virkjun. Öll þessi málsmeðferð er að mörgu leyti eftir þegar þingið hefur klárað sig af ákvörðuninni. Ef upp koma málefnaleg rök fyrir því að hugmyndin sé þegar upp er staðið ekki góð — mér mun alltaf finnast hún góð sem höfundur hugmyndarinnar, því er ekkert að leyna, það verður alltaf svo — ef upp koma málefnalegar aðstæður, hvort sem það eru náttúruverndarsamtök sem benda á þetta og/eða eins og í þessu tilfelli þar sem hv. þingmaður vísar í yfirvöld sem draga það skýrt fram með röksemdafærslum og lögum, þá hljótum við og ég vil meina að við eigum að hafa hug og þor og þrek til að taka nýjar ákvarðanir. Það mættum við gera meira af hér þegar fyrir liggja nýjar niðurstöður og nýjar rannsóknir og nýjar upplýsingar sem sýna fram á að fyrri hugmynd sé ekki góð, en við höfum einhvern tímann verið þeirrar skoðunar að hún sé betri, þá eigum við að snúa af þeirri leið og taka nýja ákvörðun. Allar ákvarðanir eru réttar þegar þær eru teknar, sjáðu til.