145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

fangelsismál.

[10:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að spyrja út í fangelsismál. Mér hefur fundist ríkja svolítið stefnuleysi í þeim málaflokki og held að það sé alveg ljóst að hann er vanfjármagnaður líka.

Þegar fangar ljúka afplánun virðist eiginlega ekki neitt kerfi taka við þeim en við höfum þó Vernd þar sem mjög margir fangar geta lokið afplánun í vægara úrræði. Ég hef kynnt mér það úrræði og tel að það ætti að nýta enn frekar. Hins vegar er það þannig að ef til dæmis fangar sem sitja í fangelsinu á Akureyri ætla að ljúka afplánun í svona vægara úrræði verða þeir að fara suður í Vernd. Það er ekkert slíkt úrræði fyrir norðan. Þó veit ég til þess að áhugi er á að setja það upp. Fangar ákveða jafnvel frekar að sitja áfram í öryggisfangelsi en að fara í þetta vægara úrræði sem er mun ódýrara. Mig langar að vita hvort eitthvað sé verið að gera í þessu máli. Mér finnst þetta mjög mikilvægt og jafnvel bara mismunun eftir búsetu sem mér finnst ekki ásættanlegt.

Mig langar líka til að spyrja um rétt fanga til náms. Margt er vel gert en erfitt hefur reynst að koma verknámi við. Margir fangar hafa áhuga á verknámi en þurfa að sækja tíma og vera jafnvel með einhverja fylgdarmenn með sér. Það getur verið dýrt hér og nú en ef við fækkum endurkomum er það sparnaður til lengri tíma. Er einhver stefna þegar kemur að aðgengi fanga til náms, verknáms eða bóknáms? Mér finnst þetta svolítið tilviljunarkennt, fara jafnvel eftir fangelsum. Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér í því að ef við náum að mennta fanga og hugsum það sem betrunarvist en ekki refsivist sé það sparnaður til lengri tíma?