145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

fangelsismál.

[10:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það er mikið grundvallaratriði hjá okkur að fækka endurkomum í fangelsi. Það hlýtur að vera það sem við horfum hvað mest á þegar við lítum til afplánunar og refsinga almennt, að leita leiða til að koma í veg fyrir að þessi ítrekun eigi sér stað eins og við sjáum óskaplega mikið af í íslenska kerfinu. Við höfum reynt að vinna í þá átt í mjög mörg ár á Íslandi. Þetta er ekki málaflokkur sem tekur kollsteypu á skömmum tíma. Þessi málaflokkur hefur verið unninn í gegnum mjög langan tíma og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það hefur alltaf verið nokkuð erfitt með fjármagn til fangelsismála. Það er ekkert nýtt. Við sjáum það bæði þegar við lítum til innviða í fangelsismálum og líka þegar við tölum um fangelsisrými, þetta er ekki eitthvað sem kom upp á í gær. Það hefur oft og tíðum verið erfitt að fá viðunandi fjármagn í fangelsismál.

En við höfum þó stigið ákveðin skref að undanförnu og auðvitað er mjög mikilvægt í þeim efnum að við séum að ljúka hérna byggingu nýs fangelsis. Þegar því lýkur verður vonandi meira borð fyrir báru í önnur verkefni.

Ég tek líka fram að það er ákveðin stefnumörkun í frumvarpi til laga um fullnustu refsinga. Þar er meira litið í átt til betrunar og til skólamála og slíkra þátta. Þótt ég geti ekki í svona stuttum fyrirspurnatíma farið mjög djúpt ofan í skólamál fanga er alveg ljóst að það er vilji til að stefna í þá átt, eins að menn geti betur lokið afplánun í annars konar úrræðum en fangelsi. Í því frumvarpi sem nú er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd eru tekin ákveðin skref í þessa átt þótt vissulega séu margir sem vilja gera betur. Þetta eru allt saman vörður á ákveðinni leið til að ná því markmiði okkar að fækka endurkomum í íslensk fangelsi.