148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að koma að loftslagsmálunum enn einu sinni. Okkur gengur hægt að minnka losun og þurfum að spýta í lófana. Losun er aðeins ein hlið af mótvægisaðgerðum gegn hlýnun, hin hliðin er svokölluð kolefnisbinding sem við höfum rætt líka, en hún leysir okkur ekki í sjálfu sér undan því að minnka losun að svo komnu máli. Bindingin fer fram, eins og allir vita, með því að græða upp auðnir og illa farið gróðurlendi, endurheimta votlendi með einhvers konar vísindalegri nálgun og stunda skógrækt.

Skógrækt hefur líka önnur gildi sem ég ætla ekki að fara inn á. Markmið skógræktargeirans núna, alls skógræktargeirans, er fjórföldun nýræktar miðað við núverandi nýrækt en þetta er aðeins tvöföldun ef við miðum við nýrækt fyrir hrun. Af þessu hlýst veruleg binding, sem ég ætla ekki að gera grein fyrir í tölum, og þar er um að ræða bæði innlendar tegundir, því að birkiskógar mynda aðalskógræktar- og skóglendi Íslands, en líka erlendar tegundir til að nýta með sjálfbærum hætti. Ég ætla að leggja til, í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands, hugmynd um veglegt átak, ykkur til umhugsunar.

Ég legg til að stofnaður verði sjóður, eins konar sjálfseignarstofnun með tilhlýðilegri stjórnun, sem við getum kallað „Græðum Ísland“ eða „yrkju“ eða eitthvað slíkt. Þetta er sem sagt þjóðarátak með framlagi ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og almennings og ætti að beinast fyrst í stað að akkillesarhæl skógræktar, sem er sem sagt framleiðsla plantna til útplöntunar. Hún á í vök að verjast og það þarf að margfalda hana. Síðan má vel hugsa sér að þetta fari að öðru leyti til eflingar skógræktar. Svona sjóður gæti orðið mjög vegleg og þörf gjöf til okkar sjálfra á þessum merku tímamótum í sögu landsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)