150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

verð á makríl.

[15:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þær sláandi fréttir að stórt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki liggi undir grun fyrir stórfelld lögbrot og fáheyrt siðleysi hafa eðlilega blásið lífi í umræðu um íslenskan sjávarútveg. Það er ekki óeðlilegt að slíkar fréttir veki upp tortryggni og að almenningur velti fyrir sér hvort einhver brögð séu í tafli hér á landi líka. Ýmsir aðilar hafa bent á vankanta í okkar kerfi. Þar má nefna óútskýrða milliverðlagningu og ekki síður mun á verðmæti einstakra tegunda eftir því hvort þær eru seldar hér eða í nágrannalöndum okkar. Verð á makríl í Noregi árið 2018 var til að mynda 300% hærra en á Íslandi. Mikilvægt er að rannsaka málið því að ef fótur er fyrir þessu er verið að hafa fé af sjómönnum, af sveitarfélögum og af ríkinu. Þetta er því nauðsynlegt bæði fyrir almenning en ekki síður útgerðarfyrirtækin sjálf.

Þá eru vitanlega lág veiðigjöld efni í sérstakar umræður. Færeyingar veiða t.d. makríl á sömu miðum og Íslendingar og bjóða hluta kvótans út. Færeyingar fá 113 kr. í veiðigjöld fyrir þann hluta en stjórnarliðar á Íslandi samþykktu veiðigjöld upp á 3,55 kr. á kílóið hér. Íslendingar rukka sem sagt veiðigjöld fyrir makríl sem eru um 3% af því sem Færeyingar fá eftir sín útboð.

Ég spyr því tveggja sáraeinfaldra spurninga og vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim undanbragðalaust: Finnst ráðherra þessi gríðarlegi verðmunur á makríl hér og hjá nágrönnum okkar eðlilegur og hyggst hann grípa til einhverra aðgerða? Í öðru lagi og ekki síður: Er ráðherra tilbúinn að láta fara fram óháða, opinbera rannsókn á verðmun afla einstakra tegunda, t.d. makríl, á milliverðlagningu á fiski?