152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

almannatryggingar.

69. mál
[11:50]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir). Auk mín á eru þessu frumvarpi Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas Tómasson. Það hljóðar svo:

„1. gr.

2. mgr. 39. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

2. og 3. mgr. 40. gr. laganna falla brott.

3. gr.

Í stað orðanna „umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans“ í 1. málsl. 41. gr. laganna kemur: umsækjanda eða greiðsluþega.

4. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var lagt fram á 149., 150. og 151. löggjafarþingi, 93. mál, og er nú lagt fram að nýju óbreytt.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tilteknum ákvæðum um upplýsingaskyldu í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, nánar tiltekið ákvæðum sem heimila Tryggingastofnun ríkisins að afla upplýsinga um tekjur maka umsækjanda eða greiðsluþega samkvæmt lögunum að fengnu skriflegu samþykki beggja og ákvæði er skyldar maka til að taka þátt í meðferð máls. Þá verði umsækjandi eða greiðsluþegi ekki látinn bera hallann vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til maka hans.

Það er eiginlega með ólíkindum að ég skuli þurfa að koma núna í fjórða skiptið og mæla fyrir þessu máli sem á að vera svo sjálfsagt að maður verður eiginlega gjörsamlega orðlaus yfir því að svona lög skuli vera í gildi í landinu. Ef búið væri að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks þá væru þessi lög ekki lengur í gildi, þá þyrfti ekki að leggja þetta fram. Þetta sýnir þá ótrúlegu óvirðingu sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur sýnt með því að viðhalda lögum sem eru gjörsamlega óþörf og eru eiginlega bara sett til höfuðs ákveðnum einstaklingum sem eru á örorku.

Það er mat flutningsmanna að gildandi ákvæði laganna um upplýsingaskyldu gangi of langt í skerðingu á friðhelgi einkalífs umsækjenda og greiðsluþega og rétti til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika, sbr. ákvæði 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þá er sú meginregla ákveðin í a-lið 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að virðing skuli borin fyrir meðfæddri göfgi og sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði þeirra. Er það mat flutningsmanna að ákvæði gildandi laga um almannatryggingar séu íþyngjandi og leggi of ríkar kvaðir á einstakling, sem nýtur réttinda samkvæmt samningnum, að afla upplýsinga hjá maka sínum og íþyngi einstaklingi sem bera þarf hallann af vanrækslu maka á því að sinna upplýsingaskyldu sinni. Lögin heimila þannig frestun á ákvörðun og greiðslu bóta vegna atriða sem ekki verða rakin til umsækjanda eða greiðsluþega sjálfs.

Ímyndið ykkur hversu ótrúlega langt aftur í tímann við erum að fara með því að vera með svona lög. Við erum að segja þarna hreint og beint — að gera maka ábyrgan fyrir öðrum einstaklingi, hinum makanum. Og ef sá maki vill ekki hlíta þeim úrskurði þá verður hinum makanum refsað með því að hann fær ekki það sem hann á rétt á. Ég spyr bara um grundvöll lýðræðis, réttlætis, og jafnréttis. Hvernig í ósköpunum — þetta er nefnilega af sama meiði og var hér áður fyrr þegar öryrkjar og eldri borgarar og aðrir voru tekjutengdir maka. Þá var sett upp sú ótrúlega staða að heilbrigði makinn, ef þannig má orða það, sá sem ekki var öryrki, bar framfærsluskyldu gagnvart hinum og þar af leiðandi átti hinn makinn engan rétt á því að fá fullar bætur eða full lífeyrislaun frá almannatryggingum. Sem betur fer er orðið töluvert síðan þetta var afnumið. En við erum samt enn inni með þetta, enn inni með það að reyna að þvinga fram einhverjar upplýsingar. Það er gjörsamlega óþarft að gefa einni stofnun þetta vald vegna þess að það er hægt að fá þessar upplýsingar í flestum tilfellum, þær liggja fyrir. En samt telur viðkomandi stofnun að hún þurfi á þessu að halda svona til vara, held ég. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum er hægt að biðja um eitthvað til vara sem er hreinlega bara brot á mannréttindum? Mannréttindum. Það hlýtur að vera eitthvað alvarlegt að í þeim hugsanagangi, það er hugsanavilla að láta einn einstakling bera ábyrgð á öðrum einstaklingi og ef hann vill ekki bera ábyrgð á þeim einstaklingi þá er hægt að taka réttindin af hinum einstaklingnum.

Þetta gengur bara ekki upp, alveg sama hvernig á það er litið. Það er alveg með ólíkindum að við skulum enn vera í þeirri fornöld að vera með þessa lagasetningu. Ég vona svo heitt og innilega að þetta frumvarp verði samþykkt núna, að ég þurfi ekki að koma með þetta enn eina ferðina af því að ég sé ekki fram á að lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna gangi fljótt í gegn. Það sem er furðulegast og eiginlega merkilegast í öllu þessu samhengi er: Hvað kostar að gera þetta? Hvað kostar það ríkissjóð að samþykkja þessa lagabreytingu sem ég legg hér til? Jú, ósköp einfaldlega: Ekki krónu. Ekki krónu. Það kostar bara það að sýna að þeir virði mannréttindi, að þeir virði einstaklinginn og láti ekki bjóða sér það lengur að sett séu í lög eiginlega gróf brot á mannréttindum um að þvinga einn aðila til að gera eitthvað til að þvinga það fram að annar fái ekki sínar bætur.

Það er svo ótrúlegt að maður skuli þurfa yfir höfuð að standa hérna uppi og berjast fyrir þessu. En þetta bara sýnir svart á hvítu hvernig hvers lags baráttu öryrkjar og aðrir í almannatryggingakerfinu, sem eru með elli-, atvinnuleysis- eða öryrkjabætur og aðrir, þeir sem eru sjúkir, þurfa að standa í enn í dag við kerfið. Þetta er smámál sem hefði bara í fyrstu atrennu átt að samþykkja strax, einn, tveir og þrír, á 149. þingi. Þá spyrjum við okkur: Hvers vegna ekki? Hvað er það í fari núverandi ríkisstjórnar sem veldur því að þeir eru tilbúnir til að halda þessu inni og halda því inni að brjóta mannréttindi, jafnrétti, að brjóta á veiku fólki? Það hlýtur að vera einhver undarleg ástæða fyrir því, því að ekki er hún fjárhagsleg. Þá spyr ég: Hver er ástæðan? Ég hef ekki fengið svar við því. Hún hlýtur einhvers staðar að liggja fyrir. En ég held bara, og verð því miður að segja það, að það sé hreinlega það að þeir vilji hafa einhver lög inni sem klekkja á viðkomandi fólki. Þá spyr ég mig: Hvers vegna? Hvað fær ríkisstjórnin út úr því að hafa svona ólög í gildi?