153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

undanþágur frá samkeppnislögum í landbúnaði.

[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og ég bind vonir við að hægt sé að stöðva þennan vonda gjörning. Ég hef áhyggjur af því að það virðist vera lenska í starfshópum ríkisstjórnarinnar að sneiða fram hjá neytendum og neytendasamtökum. Ég hef áhyggjur af því að þegar spretthópurinn er skipaður flokksgæðingum og fleirum sé ekki verið að huga að hagsmunum neytenda í þessu. Ég spyr enn og aftur: Hvernig verða skilyrðin í þágu neytenda þegar eftirlitið skortir? Við þurfum að styðja við íslenskan landbúnað en við gerum það ekki með því að fjölga undanþágum frá samkeppnislögum. Við gerum það ekki með því að ýta undir fákeppni af því að þá hækkar m.a. matarkarfan. Hvaða liðir eru það í hinni íslensku matarkörfu sem leiða hækkanir? Það eru þeir liðir sem eru undanþegnir samkeppnislögum eins og t.d. í mjólkuriðnaði. Við í Viðreisn höfum ítrekað lagt fram frumvarp sem einmitt afnemur þessar undanþágur af því að við treystum því og trúum að samkeppni leiði af sér eitthvað gott, nýsköpun í landbúnaði til að mynda, að hún leiði til þess að verðið verði hagstætt bæði fyrir neytendur og bændur. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja ráðherra til þess að fara vel yfir allar athugasemdir. Ég bind vonir við að hægt verði að stöðva (Forseti hringir.) þann óskapnað sem nú er verið að kynna en ég mun styðja ráðherra í því að efla íslenskan landbúnað.