Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Nefndin hefur fjallað um þessa tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Við fengum á fund okkar Ingólf Friðriksson og Sigríði Eysteinsdóttur frá utanríkisráðuneytinu, sem fóru vel yfir þetta, sem og Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Gauta Daðason og Jónas Birgi Jónasson frá innviðaráðuneytinu.

Með tillögunni er leitað heimildar okkar hér á þingi til að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar, og það kemur skýrt fram í skjalinu, m.a. að fella inn í samninginn gerðir sem tengjast áhættu tengda sjálfbærni og sjálfbærniþætti sem rekstraraðilar sérhæfðra sjóða eiga að taka tillit til, tengjast þáttum er varða samþættingu áhættu tengda sjálfbærni í stjórnkerfum vátrygginga- og endurtryggingafélaga, tengjast samþættingu sjálfbærniþátta, sjálfbærniáhættu og óska um sjálfbærni við kröfur um eftirlit og stýringu afurða fyrir vátryggingafélög og dreifingaraðila vátrygginga og við reglur um viðskiptahætti og fjárfestingarráðgjöf fyrir vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir. Þetta er bæði í þágu umhverfis og neytenda. Síðan á að fella inn í samninginn tilskipun er varðar áhættu tengda sjálfbærni og sjálfbærniþætti sem taka á tillit til í tengslum við verðbréfasjóði. Síðan er það ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu, sem skiptir miklu máli, og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð ESB 2019/2088. Síðan er það ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í samninginn líka reglugerð er varðar samþættingu sjálfbærniþátta, -áhættu og -óska í tilteknar skipulagskröfur og rekstrarskilyrði fyrir verðbréfafyrirtæki sem og tilskipun er varðar samþættingu sjálfbærniþátta í afurðastýringarskyldur þeirra eða sem sagt innan eftirlitsins.

Við fórum yfir þetta, margt áhugavert sem kom fram og við reynum að draga það fram í nefndarálitinu. Við teljum einnig að framsetning tillögunnar sé í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála og við leggjum til að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta nefndarálit rita ég ásamt hv. þingmönnum Bjarna Jónssyni, Diljá Mist Einarsdóttur, Jakobi Frímanni Magnússyni, Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, Loga Einarssyni og Njáli Trausta Friðbertssyni.