Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[17:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka spurningarnar vegna þess að ég ligg einmitt stundum á koddanum og velti þessu fyrir mér. Ég er ekki með svarið en mér finnst þetta skrýtið. Við erum með ríkisstjórn sem er samsett af flokkum sem spanna hið pólitíska litróf og á viðskiptaþing 2020 mætti forsætisráðherra — fannst það alveg ofboðslega flippað að vera sósíalisti umkringd fjármálaspekúlöntum, hún væri svo rosalega græn — og var bara ekkert sú grænasta í umræðunni. Hún er í ríkisstjórn með manni sem á djúpar rætur í viðskiptalífinu og ég hefði haldið að þarna væri einhver meiri tenging. Ef þetta stórundarlega samstarf flokka ætti að skila einhverri samlegð væri það ekki einmitt í sjálfbærum fjárfestingum? En græningjar og peningafólk koma saman í ríkisstjórn og svo bara gerist ekki neitt varðandi sjálfbærar fjárfestingar fyrr en það kemur eitthvað frá Evrópusambandinu. Þessi sofandaháttur er alveg magnaður.

Og af því að þingmaðurinn talaði um samkeppnishæf lífskjör og samkeppnishæft umhverfi meðal þjóða þá nær þetta náttúrlega miklu víðar. Ef Ísland væri að taka alvöruforystu í loftslagsmálum, væri að draga miklu hraðar úr losun en við erum að gera í dag, og vel að merkja, við jukum hana á síðasta ári um 3%, á vakt þessarar ríkisstjórnar, ef við værum að nota alla þá getu sem við höfum til að skara fram úr þá værum við ekki bara samkeppnishæfari heldur værum við fyrirmyndir og værum þannig að hvetja önnur ríki til að gera betur. Þegar upp er staðið, þetta pínulitla land sem við erum, væri það mögulega stærsta framlag okkar til þróunar loftslagsmála á heimsvísu. Við þurfum ekkert að botnvirkja Ísland til að stunda orkuskipti, við þurfum að fá allan heiminn til að stunda orkuskipti.