154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

tímabundinn vaxtabótaauki.

[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hin árlega jólagjafasöfnun Kringlunnar fyrir börn sem búa við bágan kost fór eins og við þekkjum frekar illa af stað. Markaðsstjóri Kringlunnar segir að það sé eitthvað mjög skrýtið í gangi í samfélaginu og í fréttum tengdi hún það strax við vaxtamálin, að heimilin í landinu finni mjög fyrir þeim og fólk einfaldlega neyðist til að halda að sér höndum, hugsa um hverja einustu krónu og vera skynsöm í sínum fjármálum. Auðvitað bitnar það einmitt á þessari söfnun. En þessi staða er auðvitað skýrt merki um það sem allir sjá, virðist vera, nema ríkisstjórn Íslands og hún virðist vera í einhverjum afneitunarham hvað þetta varðar. Það er þrengt að heimilum landsins, virðulegi forseti, og það verulega. Ég er hrædd um að við séum bara rétt að sjá upphafið að þessum veruleika núna. Fjárlögin eru á dagskrá á morgun og þetta eru sannarlega ekki fjárlög Viðreisnar. Við hefðum aldrei lagt svona fjárlög fram og við höfum ítrekað varað við þessari útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar alveg frá árinu 2018. Einn ríkisstjórnarþingmaður sagði við mig um daginn: Þið eruð alltaf að nöldra út af fjárlögunum. Já, við erum að gera það. Við erum búin að nöldra árum saman af því við óttuðumst afleiðingarnar fyrir íslensk heimili, fyrir litlu og meðalstóru fyrirtækin. Það sem er nákvæmlega verið að gera er að ríkisstjórnin er að senda þennan himinháa reikning á heimili landsins. Það er það sem þessi slælega efnahagsstjórnun ríkisstjórnarinnar kostar.

Nú er ríkisstjórnin búin að sýna á spilin. Við erum að ræða fjárlögin á morgun. Það er ekkert í kortunum sem bendir til þess að hún ætli að taka utan um þessa bágu stöðu heimilanna í landinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Útilokar hún að koma á tímabundnum vaxtabótaauka til að grípa einmitt heimilin í landinu í þessari erfiðu stöðu sem þau standa frammi fyrir núna, ekki síst í desembermánuði?