154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[17:01]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vona svo sannarlega að þetta samtal verði til þess að við getum verið stolt af því sem tekur við ef þessu verður hrint í framkvæmd. Sjálfur er ég mjög velviljaður þessu máli, það vantar ekkert upp á það. Ég fæ að taka þátt í vinnunni í allsherjar- og menntamálanefnd og það verður mjög skemmtilegt því að þetta er mikilvægt mál.

Af því að hér var vitnað í Eirík Rögnvaldsson áðan í orðaskiptum hæstv. ráðherra og hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar vildi ég gjarnan fá að halda áfram að vitna í Eirík. Hann segir á einum stað þar sem hann er að tala um þessa aðgerðaáætlun, að hún sé metnaðarfull, fjöldinn allur af góðum áformum, og vitnað var í að hann teldi kannski ekki að hún væri að öllu leyti fjármögnuð. En hann nefnir annað sem mig langaði að bjóða hæstv. ráðherra að bregðast við, að orðalagið sé svolítið loðið og óljóst. Með leyfi forseta:

„Hún er skrifuð í viðtengingarhætti – orðið verði kemur t.d. 43 sinnum fyrir í henni („leitað verði leiða“, „lögð verði áhersla“, „hvatt verði til“, „samráð verði“ o.s.frv.).“

Hann hefði sjálfur óskað að orðalagið væri ákveðnara og afdráttarlausara. Það má alveg taka undir það því að ef við erum að gera stefnu til lengri tíma, sérstaklega þegar tungumálið okkar er undir, má alveg kveða fast og einbeitt að orði. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki bara svolítið til í þessu hjá Eiríki Rögnvaldssyni? Er ekki full ástæða til þess að kveða fastar að orði í þessari aðgerðaáætlun?