141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:54]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir einkar góða ræðu og get tekið undir hvert orð sem hann sagði hér. Kannski er ég að fara dulitla fjallabaksleið að því sem mér brást tími til áðan, sem var að lesa niðurlag fyrirvara míns þar sem er sérstaklega hvatt til þess í frekara mati að sérstaklega verði horft til þess að vernda tiltekin vatnsföll ásamt viðkomandi vatnasviðum í heild frá upptökum til ósa, eins og samstaða hefur virst vera um á Alþingi að því er snertir Jökulsá á Fjöllum.

Þetta kemur inn á það sem hv. þingmaður sagði, og sem ég er hjartanlega sammála, um hversu mikilvægt er að vernda tiltekin vatnasvið í heild sinni frá upptökum til ósa og hvernig óröskuð vatnasvið heyra til undantekninga á heimsvísu í dag. Æ fleiri þjóðir sjá eftir að hafa virkjað og hamlað. Ég vil fá aðeins ítarlegri útlistun á þessu hjá hv. þingmanni og hvort hann muni leggja til breytingartillögu í þessu efni eða treysta því að þetta verði metið að verðleikum í áframhaldandi vinnu, þeir kostir sem eru í biðflokki nú þegar.

Ég tek einnig undir það hvernig miklu fleiri eru róttækari en þingið, þjóðin er grænni en þingið, ég er sammála því. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji (Forseti hringir.) einnig brýnt að fram fari stjórnsýsluúttektir, þ.e. á aðkomu orkufyrirtækjanna að stjórnsýslu (Forseti hringir.) og fjármögnun á óskyldum framkvæmdum í sveitarfélögum (Forseti hringir.) sem mikill styr stendur um, hvernig hann sjái mikilvægi þessa liðar sem meiri hlutinn tekur á í áliti sínu.

(Forseti (KLM): Enn vill forseti biðja þingmenn um að virða þau tímamörk sem okkur eru sett hér samkvæmt þingsköpum.)