149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki annað hægt en að taka einnig undir þessi orð hv. þm. Alex B. Stefánssonar. Þegar við veltum fyrir okkur einhverju stofnanalegu skipulagi, verkaskiptingu ráðuneyta eða verkaskiptingu einstakra stofnana hins opinbera, þá er það ekki endilega svo að allt sé svart eða hvítt í þeim efnum og það sé hægt að finna út eða reikna út hina einu réttu lausn. Mitt mat hefur hins vegar verið það að velferðarráðuneytið hafi eftir breytinguna 2011 orðið of stórt, of margir og ólíkir málaflokkar undir sama ráðuneyti, og að æskilegt sé að skipta því upp með þeim hætti sem hér er lagt til í þeim tilgangi að efla stjórnsýslu (Forseti hringir.) og stefnumótun á báðum málefnasviðunum.