Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[16:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við ræðum hér mál sem hefur komið hingað inn til okkar, kom fyrst í vor og hluti af því kom hér í haust þegar við vorum að afgreiða þetta. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir framsöguna í þessu máli. Það fer kannski ekkert á milli mála að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er mikill Evrópusinni. Þetta mál er kannski ágætisdæmi um það af hverju það skiptir máli að við séum hluti af EES og svo er það kannski líka spurningin um það hvort það hefði skipt máli að við værum innan Evrópusambandsins.

Mig langaði aðeins að fjalla um þetta út frá þessari ákveðnu þingsályktunartillögu. Hér er verið að álykta og taka inn reglugerðir sem skilgreina það hvernig við tökum hluti eins og sjálfbærni og ýmsa sjálfbærniþætti inn í fjármálakerfið hjá okkur. Það er nú einu sinni þannig að eitt af því sem samkomulag varð um í Parísarsamkomulaginu, að mig minnir, eða jafnvel fyrr, í hluta af vinnunni í loftslagsmálum, var að hinar ríku þjóðir ynnu saman að því að búa til meira af fjármagni til að fjárfesta í grænum lausnum úti um allan heim. Þarna erum við ekki að tala um einhverjar smáupphæðir heldur var markmiðið sem var sett, sem reyndar mun ekki nást fyrr en í fyrsta lagi á næsta eða þarnæsta ári, um 100 milljarðar dollara á ári. Eitt af því sem skiptir máli í því sambandi er nákvæmlega þetta, þ.e. að hægt sé að skilgreina hvað sé fjárfesting sem fellur undir það að vera sjálfbær, að vera fjárfesting í sjálfbærum þáttum.

Það er dálítið athyglisvert að mér vitanlega er ekkert slíkt til í íslensku lagaumhverfi í dag og í íslensku fjármálaumhverfi. Það getur hver sem er sagst vera að selja eitthvað sjálfbært, en er það virkilega sjálfbært? Er það sjálfbær fjárfesting eða ekki? Ja, ég veit það ekki.

Frú forseti. Það er lítið gagnsæi í því í hverju lífeyrissjóðirnir okkar eru að fjárfesta, hvort þeir séu að fjárfesta í olíufyrirtækjum, tóbaksfyrirtækjum, jafnvel stríðsfyrirtækjum — hver veit. Hér er það alla vega þannig að þegar þessar reglugerðir hafa verið innleiddar get ég valið það, ef lífeyrissjóðurinn minn býður upp á það, að segja að ég vilji að mínar fjárfestingar séu sjálfbærar, að ég vilji að séreignarsjóðurinn minn fjárfesti í einhverju sem er sjálfbært. Ég vil ekki að mínir framtíðarpeningar fari í olíuiðnað, álver eða hvað það er nú fleira.

Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á er skilgreiningin á því hvað er grænt og hvað er ekki grænt kannski ekki alveg nógu góð í augnablikinu en það er þó alla vega komin einhver skilgreining. Hún er þá alla vega skárri en það að jafnvel séu tækifæri til hreinna og klárra blekkinga hjá þeim sjóðum eða aðilum sem við viljum fjárfesta okkar peningum hjá. Í dag geta þeir sagt: Við erum með sjálfbært. Sjálfbært er álíka vel skilgreint og lífræn framleiðsla var fyrir nokkrum árum. Það voru engin skilyrði til í landbúnaðarskilgreiningunni hvað það ætti að vera. Það er í raun þarna sem við byrjum að spyrja okkur af hverju það skipti máli að við séum í samstarfi eins og EES. Jú, af því að það er greinilegt að við erum ekki að vinna allar þessar skilgreiningar sjálf, stjórnkerfið okkar, embættismenn okkar o.s.frv., er ekki að búa til skilgreiningar sem við sem neytendur í þessu tilfelli krefjumst að séu til.

Þá komum við kannski að spurningunni sem ég nefndi við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í upphafi: Af hverju skiptir það máli hvort við erum í Evrópusambandinu eða ekki? Jú, það er nefnilega þannig, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á áðan, að það er hlutverk Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að setja upp allar þessar reglur. Okkar hagsmunagæsla gagnvart Evrópusambandinu í þessu er í besta falli að við séum með einn aðila frá einhverju ráðuneyti hér að reyna að gæta hagsmuna Íslands í kannski 50–100 málum sem snerta það ráðuneyti. Eins og við þingmenn sem fórum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi fyrir tveimur eða þremur vikum komumst að var samninganefnd Íslands, fjórir aðilar, en samningafundirnir sem voru í gangi í einu voru oft 10 til 20. Þarna er orðið erfitt að gæta hagsmunanna nægilega vel. Ég veit að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er eflaust sammála mér í því að kannski þurfum við sterkari rödd við borðið fyrr, til þess að geta skilgreint svona hluti betur og haft áhrif. En við vitum ekki hvað það mun kosta okkur að fá að sitja við borðið. (ÞKG: Eigum við ekki bara að komast að því?) Við Píratar höfum sagt að við viljum alla vega fá þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við eigum ekki að komast að því en ríkisstjórnin þorir ekki alveg að fara þangað.

Þetta eru kannski með þurrustu þingsályktunum og lagatextum að lesa. Það er endalaust eitthvað svona: reglugerð þetta, númer þetta, frá þessum degi, þetta ár, sem síðan varð að framseldri reglugerð þetta árið o.s.frv. — kannski ekki alveg bein tilvitnun, frú forseti, en svona nokkurn veginn umorðað. Þó að þetta sé kannski ekki skemmtilegasta og auðveldasta lesningin — og ég vorkenni alltaf þeim sem fá að flytja nefndarálitin vegna þess að þar er alltaf kafli sem er svona — þá er þetta mjög mikilvægt skref í þá átt að íslensk fjármálafyrirtæki, íslensk vátryggingafyrirtæki og bara við öll sem erum hér og gerum eitthvað á sviði fjármálaþjónustu, hvort sem það er sem neytendur eða sem þjónustuaðilar, getum farið að taka sjálfstæðar ákvarðanir um það hvernig við viljum að okkar lífeyri, okkar líftryggingum, okkar fjármunum, sé varið. Hvernig eru þeir ávaxtaðir? Eru þeir ávaxtaðir á sjálfbæran hátt eða eru þeir sem eru með þá, eru að fjárfesta fyrir okkur, bara að leita að því hvar mesti gróðinn er. Þessu þurfum við að passa okkur á. Þá er ágætt að það séu einhverjar þúsundir embættismanna í Evrópu sem eru þó alla vega nokkrum skrefum á undan okkur í að skilgreina þetta þannig að við getum tryggt að fjármálaþjónusta hér á landi sé sjálfbær þegar hún segist vera sjálfbær.