Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu og punkta. Ég man líka eftir þessu viðskiptaþingi, Á grænu ljósi, fyrir tveimur árum, árið 2020, þar sem viðskiptalífið var mjög eindregið að kalla eftir skýrum línum, líka af hálfu framkvæmdarvaldsins, af hálfu stjórnvalda sem enn eru við völd. Ég tek undir það með hv. þingmanni, það hefur komið mér á óvart hversu lítið frumkvæði hefur komið af hálfu ríkisstjórnarinnar verandi þó með flokk þar innan borðs sem hv. þingmaður tilheyrði einu sinni og skilgreinir sjálfan sig sem flokk með grænar áherslur. Þetta er ekki bara viðskiptaþing sem um ræðir heldur er atvinnulífið almennt að kalla eftir mjög skýrum línum í þessu af því að atvinnulífið vill ekki sitja eftir. Þetta snýst líka um samkeppnishæf lífskjör hér á Íslandi. Þetta snýst um það að við búum við samkeppnishæft umhverfi gagnvart útlöndum. Ég held m.a. að þetta geti verið hluti af því að við verðum enn meira aðlaðandi, og veitir ekki af, fyrir erlendar fjárfestingar ef við öxlum ákveðna ábyrgð á því hvað fellur undir grænar fjárfestingar. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvernig útskýrir hann þennan sofandahátt af hálfu ríkisstjórnarinnar? Það tengist kannski líka annarri spurningu: Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki sýnt meira frumkvæði í markmiðum og verið með djarfari markmið varðandi losun en Evrópusambandið? Af hverju náum við varla Evrópusambandinu þegar kemur að markmiðum í loftslagsmálum?