Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvörðun nr. 396/2021 um breytingu á XX. viðauka við EES- samninginn o.fl.

475. mál
[17:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mig langar aðeins að ræða í þessu máli um gamlan kunningja sem er ein af ástæðunum fyrir því að hér er verið að breyta samevrópsku regluverki, og það er hið svokallaða Dieselgate, hneyksli þar sem upp komst að Volkswagen svindlaði á dálítið mörgum, það svindlaði á neytendum, svindlaði á náttúrunni og svindlaði á ríkisstjórnum. Og hvernig var það gert? Jú, það var gert með því að settur var sérstakur búnaður í bíla sem gat stillt útblásturinn frá þeim þannig að þegar bílarnir fóru í prófanir, þar sem var kannað hversu mikinn koltvísýring þeir losuðu, þá bara minnkaði losunin. Ég er ekki verkfræðingur en það var einhvern veginn hægt á hreyflinum þannig að það kom minni mengun út úr bílnum. Þannig gat Volkswagen selt bílana sína sem grænni kost en þeir voru í raun og veru. Þannig gátu þeir bílar orðið ódýrari en þeir áttu skilið að vera í mörgum löndum þar sem voru ívilnanir fyrir bíla sem losuðu minna af koltvísýringi. Þannig urðu ríkisstjórnir væntanlega af einhverjum kolefnisgjöldum af bílunum, kolefnisgjöldum sem oft er ráðstafað beint í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Það þarf því ekki mörg skref til að segja að þessar aðgerðir bílaframleiðandans hafi beinlínis dregið úr þeim slagkrafti sem ríkisstjórnir höfðu til að bregðast við loftslagsvandanum. Nýtt kerfi var því innleitt sem felur í sér að það er verið að mæla raunlosun.

Við ræddum þetta fyrir nokkrum árum þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra — sem ég held að hann hafi líka verið þá — kom með, sem hluta af bandormi, dálítið flókna tæknilega breytingu á lögum um skatta og gjöld til þess að ná utan um þessi ólíku kerfi til að mæla losun bíla, gamla úrelta kerfið sem Volkswagen svindlaði á og nýja kerfið sem byggir á raunlosun bifreiða. Umræðan sem spannst þá var dálítið áhugaverð og kannski rétt að rifja hana upp vegna þess að þá var lögð svo rík áhersla á það, af hálfu hæstv. ráðherra, að breytingarnar ættu ekki að leiða til þess að verð á viðkomandi bílum hækkaði, sama hvort mælitækið væri notað. Þetta sló okkur sum dálítið illa vegna þess að þar með var ráðuneytið í raun að segja að þegar nýrri mælikvarðanum væri beitt, og í ljós kom að bíllinn losað í raun meira en gamli mælikvarðinn sagði, ætlaði ríkið að leyfa mengunaraðilanum að njóta vafans, að draga úr efnahagslega hvatanum sem var fyrir umhverfisskárri bifreiðum með því að fletja aðeins út gjaldtökumódelið. Nú erum við kannski komin yfir þann hjalla og eingöngu farin að nota nýju mæliaðferðina.

Það hvernig þingið vann úr þessum athugasemdum — og nú langar mig mest til að segja vann ekki úr þeim — leiðir hugann að því hvað við erum oft í skakkri stöðu þegar kemur að því að meta raunverulegar afleiðingar þeirra ákvarðana sem eru teknar hér í málum sem snerta umhverfis- og loftslagsmál og eru oftar en ekki tæknileg og flókin og þar að auki útsett fyrir mjög öflugum hagsmunavörðum. Við erum ekki, ekki frekar en ríkisstjórnin sjálf, með getu til þess að greina loftslagsáhrif þeirra ákvarðana sem hér eru teknar af neinu viti.

Loftslagsráð hefur ekki enn fengið í hendur þau verkfæri sem það þarf til að geta verið sjálfstæður eftirlitsaðili með því að aðgerðir uppfylli einhvers konar markmið og við eigum enn eftir að sjá frumvarp, hvað þá fjárlög, þar sem hægt verður að sjá útlistað hvaða nettóáhrif á losun einhver fjárfesting eða lagabreyting, eða hvað það er annað, hefur í raun og veru. Við erum því enn í þeirri stöðu að sérfræðiþekkingin á þessu er annars vegar hjá hagsmunaöflunum, sem eru rekin af aðilum með djúpa vasa og ríka hagsmuni, og hins vegar hjá frjálsum félagasamtökum eins og Landvernd, sem stendur sína vakt af miklum krafti miðað við fjárhagslegan vanmátt. Þegar við erum að afgreiða hér tillögur sem segja hreinlega svart á hvítu að einhverjir draumar um að eftirlit markaðsaðila með sjálfum sér er dæmt til að mistakast, af því að það eru of ríkir hagsmunir í að svindla á því, er kannski ágætt að minna okkur á að gera gangskör í því að vera með öflugra opinbert eftirlit og auka greiningarmöguleika bæði hjá ríkisstjórn og Alþingi og síðan að styðja frjálsu félagasamtökin sem þurfa að veita þetta nauðsynlega aðhald ásamt því að efla loftslagsráð til að geta unnið sjálfstæðar greiningar. Án þess lendum við í því sama og gerðist hér árið 2020 eða 2021 þegar til stóð að fella niður ívilnun til tengiltvinnbíla. Fjármálaráðherra lagði það til og hafði rétt fyrir sér í því en meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hlustaði á Bílgreinasambandið, hagsmunavörð bílainnflytjenda og bílasala, og ákvað að framlengja ívilnun til tengiltvinnbíla. Á þeim tímapunkti voru tengiltvinnbílar fyrir lifandislöngu búnir að þjóna þeim tilgangi að vera einhvers konar brú á milli hreinna bensínbíla yfir í hreinorkubíla, hafi þeir einhvern tímann verið það. En með því að framlengja að fullu um eitt ár og að hluta um annað ár tók Alþingi þá ákvörðun að veita milljörðum á milljarða ofan í ívilnanir til þessara bíla sem ofan á það að vera býsna dýrir — þannig að ekki snýst þessi aðgerð um félagslega réttlætið sem við þurfum að sjá í aðgerðum í loftslagsmálum — eru ekki neyslugrannir. Þetta eru þungir bílar sem, þegar þeir ganga fyrir bensínmótor, eyða oftar en ekki meira en hreinn bensínbíll. Það var bent á það í umræðunni hér á sínum tíma og því flaggað af umsagnaraðilum úr grænu áttinni að það væri jafnvel í uppsiglingu ekki minna hneyksli en Dieselgate í þeim bransa, að það hefði verið farið ansi frjálslega með tölurnar varðandi losun tengiltvinnbíla þannig að þeir litu betur út á pappír en þeir voru í raun og veru. Þegar raunverulegar mældar aksturstölur voru síðan skoðaðar hér á landi kom líka í ljós að sá tími sem tengiltvinnbíll keyrði á rafhlöðu var miklu minni en gert var ráð fyrir í nokkrum útreikningum bílaframleiðendanna. Þarna vorum við sem sagt, svo að ég komi mér að punktinum sem ég ætlaði að vera með þarna, í þeirri stöðu að Alþingi tók, á grundvelli einhliða upplýsinga, nokkuð afdrifaríka ákvörðun sem sýndi okkur að við lærðum kannski ekki nógu mikið af Dieselgate þó að við séum hér með tillögu til þingsályktunar um að innleiða frá Evrópusambandinu viðbrögð við því. Ég veit ekki, frú forseti, miðað við þann seinagang sem við höfum orðið vitni að á síðustu misserum, í því að efla stjórnsýslu loftslagsmála í Stjórnarráðinu, hvort við erum á nokkuð betri stað árið 2022 en við vorum þarna 2019–2020. En ég held að við ættum að líta á tilefni þessarar tillögu til þingsályktunar sem hvatningu til að gera betur í þessum málum alls staðar þar sem þau birtast. Við viljum ekki að Alþingi Íslendinga geri aftur þá skyssu sem var gerð með tengiltvinnbílana, ekki frekar en við viljum endurtaka það að bílaframleiðendur geti svindlað á losunarmælingum eins og gerðist í Dieselgate.