Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:49]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ákvað að koma hérna upp í andsvör af því að mér fannst eins og það væri verið að beina til mín spurningu um hvort við gætum sett kvóta á mannréttindi. Ég held að það sé bara hollt og rétt að við spyrjum okkur þeirrar spurningar: Getum við sett kvóta á mannréttindi? Hér hefur verið á það bent að það er ýmislegt í fjárlagafrumvörpum eða fjárlagagerð sem er þannig að það er bara opinn tékki á þá þjónustu sem verið er að veita eða þau útgjöld sem verið er að leggja í. Síðasta dæmið er auðvitað styrkir til erlendrar kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Það er bara opinn tékki. Hér geta komið ríkir erlendir aðilar og fengið endurgreiðslu upp á 35%. Það er enginn kvóti á því. Það hefur verið boðað að í fjárlagafrumvarpi næsta árs verði sala á rafbílum heimil út árið. Enginn kvóti á því, bara nógu marga rafbíla á næsta ári, hvort sem það er annar, fjórði eða fimmti bíll á heimilinu. Það er enginn kvóti á því. Annað sem hægt er að nefna líka eru atvinnuleysistryggingar. Það er enginn kvóti á því, það er bara borgað. Þegar kvótinn er búinn þá er bara haldið áfram og menn leysa hlutina með fjáraukalögum og veigra sér ekki við að koma með breytingar upp á milljarða eða tugi milljarða í gegnum fjáraukalög. Það er enginn vandi ef vilji er til þess, í stað þess að setja kvóta á mannréttindi, að gera það með þeim hætti.