Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir að svara mínu andsvari við hans ræðu þótt seint hafi komið fram. Þetta er áhugaverður samanburður sem hv. þingmaður kemur með. Það er nefnilega ýmislegt sem ekki er settur kvóti á er varðar útgjöld úr ríkissjóði og þar sem þeirri aðferð er beitt að líta svo á að það sé eitthvað sem við einfaldlega verðum að standa straum af. Það er mér í rauninni hulið hvers vegna það á ekki við um þetta mál. Þetta er svo sem ekki einsdæmi. Það gerðist fyrir alls ekki löngu síðan að Alþingi samþykkti að gera sálfræðiþjónustu að hluta af almennum sjúkratryggingum og það var ekki fjármagnað heldur. Þannig að þetta eru ekki einu mannréttindin, þetta eru ekki einu réttindin sem Alþingi ákveður að veita fólki sem ríkisstjórnin kemur síðan í rauninni í veg fyrir að séu veitt með því að veita ekki til þess nægilegu fé. Eftir stendur þessi spurning: Hvers vegna telur ríkisstjórnin rétt að gera það í þessum málum? Hvers vegna má þetta sitja á hakanum? Hvers vegna sitja þessi grundvallarréttindi fólks til þess að geta lifað eðlilegu og sjálfstæðu lífi — eitthvað sem er orðið sjálfsagt í dag og þess vegna var þetta samþykkt í lögum — á hakanum en ekki ýmsir aðrir hlutir? Má þar nefna einhver af þeim dæmum sem hv. þingmaður nefndi í sínu andsvari hérna rétt áðan. Þessi spurning stendur eftir að mínu mati.