135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[01:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í 3. umr. fjárlaga á hv. Alþingi Íslendinga þegar klukkan er átta mínútur gengin í tvö aðfaranótt fimmtudagsins sem hæstv. forseti hafði gert ráð fyrir í starfsáætlun þingsins að yrði síðasti dagur þings fyrir jólahlé, þessa haustþings. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. forseta verði að ósk sinni í þeim efnum. Þannig er nú háttað vinnulaginu hér að enn eina ferðina talar maður inn í nóttina í fjárlagaumræðunum. Ég trúi því þegar ég sé það að það séu einhverjar meiningar í því að menn vilji breyta því vinnulagi. Engu að síður erum við hér nú og setjum undir okkur hausinn þó að risið hafi oft verið hærra á okkur hv. þingmönnum sem hér erum að tala nú á þessum tíma sólarhringsins.

Ég vil einungis segja að ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá flokkssystkinum mínum varðandi þær áherslur sem við söknum úr tillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar. Þar erum við fyrst og síðast að tala um heilbrigðismálin, sjúkrahúsin, heilsugæsluna og annað sem því tengist eins og fram hefur komið í ræðum félaga minna. Ég kem hingað fyrst og fremst til þess að mæla fyrir breytingartillögum sem eru á þremur þingskjölum. Breytingartillögur þessar eru ýmist lægri útgáfa af tillögum sem felldar voru við 2. umr. eða þá tillögur sem kallaðar voru aftur til 3. umr. af okkur í 2. umr.

Tillögurnar sem ég mæli fyrir eru á þskj. 466, 467 og 471. Þær varða í fyrsta lagi framhaldsskólana þar sem við fjöllum um listgreinar í framhaldsskólum og sömuleiðis almennt framhaldsnám í tónlistarskólunum. Í öðru lagi er hér breytingartillaga á þskj. 467, hún varðar stofnanir umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, og í þriðja lagi breytingartillögur sem varða framhaldsskólana almennt, þ.e. rekstur framhaldsskólanna og sömuleiðis Listasafn Íslands sem er á sama þingskjali.

Ég átti orðastað við hv. formann fjárlaganefndar fyrr í dag í andsvörum þar sem ég ræddi lítillega safnliðamálin sem mér hafa verið nokkuð hugleikin í þessari umræðu og óskaði ég eftir upplýsingum um þá safnliði eða þ.e. þá óskiptu liði sem væru til staðar í fjárlagafrumvarpinu sem heyrðu undir menntamálaráðherra og væri ekki úthlutað af fjárlaganefnd sjálfri heldur liðir sem hæstv. ráðherra fengi að halda óskiptum. Eins og ég gat um í andsvari eru safnliðirnir sem fjárlaganefnd er að úthluta upp á rúman milljarð kr., einn milljarður og tólf milljónir reiknaðist mér til í fljótheitum í dag, en óskiptu liðirnir sem menntamálaráðherra hefur í sinni vörslu eru eftir því sem ég hef fengið núna á minnisblaði frá hv. formanni fjárlaganefndar upp á 255 millj. kr. Þannig að til viðbótar við safnliðina sem fjárlaganefndin er að úthluta upp á rúman milljarð hefur menntamálaráðherra sjóð upp á 255 millj. kr. sem henni er ætlað að úthluta af eftir eigin geðþótta, eitthvað sem Alþingi setur henni ekki neina forskrift um.

Ég verð að segja að þegar horft er á stofnanir menntamálaráðuneytisins og þær beiðnir sem bæði menntamálanefnd og fjárlaganefnd hafa fengið nú í fjárlagaumræðunni frá stofnunum úti á akrinum undir þessum málaflokki þá hefði mér fundist meiri bragur að því að fjárlaganefnd hefði svarað þeim stofnunum skýrt og skorinort og bætt fjárhagsstöðu t.d. Listasafns Íslands eða Myndlistaskólans í Reykjavík, sem eru stofnanir sem ég gerði að umtalsefni í 2. umr. fjárlaganna, frekar en að skilja eftir 255 millj. kr. í sjóðum hjá ráðherranum óeyrnamerkt. Ég hefði haldið að undir liðum menntamálaráðuneytisins ættum við það rýmilega fjármuni að Alþingi Íslendinga hefði getað ákveðið það fyrir sig ef vilji hefði verið fyrir hendi að bæta stöðu Listasafns Íslands.

Eins og ég hef vikið að áður er Listasafn Íslands mér afar hugleikið, menntamálanefnd heimsótti safnið á haustdögum og hét safninu og því fólki sem þar starfar liðsinni. Við hétum liðsinni okkar því fólki sem er að berjast fyrir safninu og er að reyna að halda þar öllu í horfinu við þann þrönga kost sem safninu hefur verið skorinn af fjárveitingavaldinu nú á seinni árum.

Einn af þessum óskiptu liðum menntamálaráðuneytisins er eyrnamerktur geymsluhúsnæði safna og sá liður heyrir ekki undir þessar 255 millj. kr. Hann er samt sem áður óskiptur að því leytinu til að á honum eru 70 millj. kr. en það er engin forskrift frá fjárlaganefnd til menntamálaráðherra um það hvernig eigi að verja þeim 70 milljónum. Ég hefði viljað sjá skorinorða yfirlýsingu frá fjárlaganefnd um að þessar 70 milljónir, þess vegna allar, ættu annaðhvort að fara til húsakaupa eða í öllu falli að renna til úrbóta á geymslumálum Listasafns Íslands. Fjármunirnir eru til, það vantar bara forskriftina frá fjárlaganefnd til ráðherrans um að það skuli verja fjármununum á þann hátt. Ákallið sem menntamálanefnd sendi hv. fjárlaganefnd í umsögn sinni var þess eðlis að mér finnst það með ólíkindum að fjárlaganefnd skuli hafa þverskallast við og látið það sem vind um eyru þjóta. Mér þykir það líka með ólíkindum að þingmenn stjórnarmeirihlutans í menntamálanefnd skuli bara láta sér í léttu rúmi liggja að ákallið sem sett var fram af allri menntamálanefnd til fjárlaganefndar skuli vera hunsað og engar athugasemdir hafi komið fram nema frá mér.

Hvers vegna eru hv. þingmenn ekki fylgnari sér en raun ber vitni í þessum efnum? Meina hv. þingmenn ekkert með þeim umsögnum sem sendar eru, í þessu tilfelli frá menntamálanefnd til fjárlaganefndar? Eða eru menn bara vanir því að fjárlaganefnd geri það sem henni sýnist, gangi á bak orða sinna ef ekki vill betur. Það gerði hún gagnvart menntamálanefnd varðandi úthlutun safnliða þó að okkur hefði verið sagt að við fengjum að sitja við borðið þar til búið væri að úthluta öllum þeim fjármunum sem fjárlaganefnd ætlaði sér að úthluta af safnliðum? Menntamálanefnd fékk ekki að sitja við borðið alla leið þó að okkur hefði verið talin trú um það fyrir fram að svo yrði vegna þess að nú ætti að taka upp ný vinnubrögð. Það var ekki gert og menntamálanefnd varð að láta sér lynda að fjárlaganefnd færi yfir allar tillögur hennar, bætti í sjóðina og úthlutaði úr þeim frá eigin brjósti úr því að henni áskotnuðust fjármunir einhvers staðar á leiðinni, menntamálanefnd fékk ekki að koma að þeim úthlutunum.

Fleiri slíkir safnliðir eru eyrnamerktir að hluta til. Ég er þar að tala um lið undir yfirskriftinni Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður, merkt 6.95 Menningarhús upp á 40 millj. kr. Hvaða menningarhús er verið að tala um? Ég spurði að þessu í dag en hef ekki heyrt neinar skýringar þó að ég hafi reynt að fylgjast með umræðunni eftir því sem mér hefur verið það kleift. Fjörutíu milljónir króna í menningarhús en Alþingi Íslendinga ætlar ekki að gefa ráðherranum neina forskrift um það hvaða menningarhús þetta eigi að vera. Í sama kafla er fjárlagaliður nefndur 6.21 Endurbætur menningarstofnana upp á tæpar 25 millj. kr., ekki heldur nein sundurliðun eða forskrift um það hvaða endurbætur verið er að tala um.

Þjóðleikhúsið nefndi ég hér í 2. umr. Þjóðleikhúsið stendur frammi fyrir því að þurfa að endurfæðast, liggur mér við að segja, það þarf að ganga í endurnýjun lífdaga. Það er að nokkru leyti að gera það nú þessa dagana þar sem ákveðnum verkþætti í þeirri endurbyggingu er nú lokið, þ.e. viðgerðum utan húss. Ekki er þar með sagt að búið sé að gera það sem gera þarf fyrir Þjóðleikhúsið. Þjóðleikhúsið þarf á verulegum fjármunum að halda til þess að geta farið í þær framkvæmdir sem þarf til að stækka húsið til norðurs og austurs. Þær áætlanir hafa lengi legið á borði þjóðleikhússtjóra og hafa verið kynntar bæði fyrir fjárlaganefnd og menntamálanefnd og fyrir menntamálaráðherra, en samt eru bara 20 millj. kr. á liðnum Endurbætur menningarstofnana á því ári sem fram undan er, 2008, til Þjóðleikhússins.

Hæstv. forseti. Ég hefði talið full efni til að taka myndarlegar á þessum málum og tala skýrar til hinna merku menningarstofnana Listasafns Íslands og Þjóðleikhússins og ég gæti svo sem nefnt þær fleiri til sögunnar. Listasafn Íslands sendi inn greinargerð að beiðni menntamálanefndar þar sem fram koma mjög forvitnilegar, yfirgripsmiklar og glöggar upplýsingar um stöðu safnsins og það hvernig menn hafa reynt að halda í horfinu þrátt fyrir niðurskurð. Við sjáum á þeim gögnum að kostnaður við rekstur Listasafnsins hefur fyrst og fremst aukist vegna hækkunar launa í kjölfar stofnanasamninga sem gerðir voru og einnig hefur rekstur fasteigna reynst þyngri í skauti en gert var ráð fyrir. Þar eru tölvukerfi ýmiss konar sem eru nauðsynlegur þáttur í starfsemi safnsins þurftarfrek og svo aukinn flutningskostnaður vegna verka sem send eru að utan, vegna íslenskra verka sem send eru til útlanda á sýningar og vegna trygginga vegna sýningarhalds.

Þegar launakostnaður upp á tæpar 63 millj. kr. og listaverkakaup upp á um 12 millj. kr. hafa verið greidd af fjárveitingum — hér er reyndar verið að vitna til eldri fjárveitingar — er á endanum kominn halli á safnið sem erfitt hefur verið að stemma stigu við. Menn hafa brugðist við honum með því að skera niður stöðugildi, á síðustu tíu árum hefur fækkað um meira en þrjú stöðugildi í safninu og er svo komið að búið er að skera þar inn að beini og ekki möguleiki að skera þar meira af. Og á þessum tímum þegar menntamálanefnd lýsir í orði kveðnu vilja til þess að gera einhverjar bragarbætur sérstaklega með tilliti til rannsóknarþáttarins, sem safnið hefur verulega þörf fyrir að setja aukna fjármuni í, er ástandið eins og ég hef nú lýst, stakkurinn þröngt skorinn og safninu ekki gert kleift að fá það loft undir vængina sem ég hefði talið að Alþingi ætti að geta ljáð því. Við leggjum sem sagt til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að Listasafnið fái 20 millj. kr. Við hugsum það fyrst og fremst til þess að safnið geti sinnt auknum rannsóknum og geti haldið áfram öflugri uppbyggingu á gagnagrunni um íslenska myndlist sem hefur verið í vinnslu hjá safninu og er að miklu leyti kominn í tölvutækt form.

Ég minnist þess að í 2. umr. óskaði ég eftir því að fá að vita skiptinguna á milli menningarstarfsemi annars vegar og skólastarfsemi hins vegar af þeirri hækkun sem meiri hlutinn lagði til við 2. umr. Þar var verið að leggja til hækkun á lið menntamálaráðuneytisins um 1.558 millj. kr. Ég hef ekki gengið eftir því að fá þessa skiptingu og ekki hefur verið komið með hana til mín að fyrra bragði þannig að ég veit enn ekki hvernig sú mikla hækkun skiptist á milli menntamála og menningarmála. Ég þykist þó sjá að mikill meiri hluti renni til menningarmála en minni aftur til skólamála.

Skólaþátturinn, sem ég hef borið fyrir brjósti og haldið í umræðunni, snertir framhaldsskólana. Við leggjum til 250 millj. kr. framlag í viðbót á rekstur framhaldsskólanna og það er bara á almennan lið framhaldsskólanna. Við teljum einsýnt að framhaldsskólarnir séu enn í spennitreyju og verði það á næsta ári nema til komi hækkun á almennan grunn þeirra. Fjölmennir bóknámsskólar eiga í ákveðnum erfiðleikum og hafa ekki fengið nægilegar leiðréttingar í gegnum reiknilíkanið fyrir sig. Það eru líka erfiðleikar varðandi ungt fólk sem kemur upp úr grunnskólanum með svokallaða greiningu vegna t.d. ofvirkni eða athyglisbrests. Sú fötlun er ekki þannig skilgreind að henni fylgi aukið fjármagn samkvæmt reiknilíkaninu en engu að síður fylgir aukið umstang og álag á skólafólk, á kennara og starfsfólk skólanna, en þetta er ekki metið í reiknilíkaninu og því verður að breyta. Þetta ætti þá heima undir þessum almenna lið Rekstur framhaldsskóla og þessar 250 millj. kr. mundu gera talsvert mikið í því að bæta stöðu skólanna og ættu þá sinn þátt í því að skólafólk gæti mögulega trúað því að menn meini það sem þeir segja þegar þeir tala um framhaldsskóla fyrir alla eða öflugt og kraftmikið framhaldsskólastig.

Ég hef einnig borið myndlistarskólana fyrir brjósti. Ég fagna því að Myndlistarskólinn í Kópavogi hefur, í nýjustu breytingartillögum meiri hlutans, fengið viðbótarframlag upp á 2,5 millj. kr. Ég fagna því að það framlag skuli hafa komið en ég leyfi mér þó að ítreka þau sjónarmið mín, sem komu fram við 2. umr., að sú tala sé eflaust jafnhandahófskennd og 5 milljónirnar tvær sem Myndlistaskólinn á Akureyri og Myndlistaskólinn í Reykjavík fengu við 2. umr. frá fjárlaganefnd í viðbót við það sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Við fengum aldrei neinn rökstuðning á bak við þær 5 milljónir sem hvor skóli um sig fékk í þeirri lotu en sannleikurinn er sá að þetta eru skólar sem leggja út í talsverðan kostnað við að mennta nemendur sem stunda nám við listnámsbrautir framhaldsskólanna. Framlögin sem þessir skólar, Myndlistaskólinn í Reykjavík, Myndlistarskólinn í Kópavogi og Myndlistaskólinn á Akureyri, fá frá hinu opinbera eru u.þ.b. þriðjungi lægri fyrir hvern nemanda en framhaldsskólarnir sjálfir fá samkvæmt reiknilíkaninu fyrir þá myndlistarnema sem stunda nám sitt innan vébanda framhaldsskólanna. Að mínu mati er fólgið í þessu ranglæti sem mér finnst einsýnt að þurfi að leiðrétta. Við hefðum haft tækifæri til að leiðrétta það við umfjöllun fjárlaga og mér þykir mjög miður að það skyldi ekki gerast á málefnalegri og skilvirkari hátt en raun ber vitni.

Einnig er ákveðið ranglæti fólgið í því að nemendur greiða úr eigin vasa skólagjöld í þessa sjálfstæðu sérskóla þó að einingar sem nemendur taka þar séu metnar til stúdentsprófs og teknar gildar sem slíkar. Umboðsmaður Alþingis hefur kveðið upp úr um að slíkt standist ekki lög og uppi eru hugmyndir um að breyta því en enn hef ég ekki séð að vilji fylgi þeim orðum, a.m.k. er ekki gert ráð fyrir fjármunum í fjárlagafrumvarpinu til þess að einhverjar slíkar leiðréttingar gætu orðið á næsta ári.

Mér hefur fundist skorta skýringar frá fjárlaganefnd á því hvað þessir fjármunir eigi að dekka, þessar 2,5 millj. kr. sem fara til Myndlistarskólans í Kópavogi og framlögin sem Myndlistaskólinn í Reykjavík og Myndlistaskólinn á Akureyri fá. Það er ekkert um nemendaígildi, ekkert um reiknilíkan eða raunkostnað. Tilgáta mín er sú að um sé að ræða skot í myrkri frekar en nokkuð annað og fjárlaganefnd hafi ekki farið í saumana á þörf skólanna, ekki skoðað nemendafjölda þeirra eða kennslukostnað og látið fjárveitingarnar taka mið af því, heldur hafi hún af handahófi sett þetta til skólanna, nánast gripið úr lausu lofti, og þar af leiðandi styðji engin málefnaleg rök þau framlög sem hér um ræðir. Það er brýnt og mikilvægt að fjárlaganefnd verði málefnalegri í niðurstöðum sínum. Verið er að sýsla með svo gríðarlega fjármuni þegar á heildina er litið að verulegu máli skiptir að fjárlaganefnd hafi rök fyrir öllum niðurstöðum sínum, en ég dreg í efa, hæstv. forseti, að svo sé.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um fjárveitingar til Þjóðminjasafnsins sem ég hafði líka orð á í 2. umr. Nú langar mig til að snúa talinu að öðru en því sem ég fjallaði um þá. Ég gagnrýndi talsvert þá gríðarlegu fjármuni sem fjárlaganefnd er einhliða að setja í ýmis uppbyggingarverkefni vítt og breitt um landið þar sem verið er að endurreisa gömul hús. Ég tek enn einu sinni fram að ég er ekki að kasta rýrð á þau verkefni sem þar um ræðir. Mér finnst hins vegar skjóta skökku við að fjárlaganefnd skuli geta úthlutað til uppbyggingar gamalla húsa eða endurbyggingar gamalla húsa upphæðum sem eru á annað hundrað milljónir, ef ég man rétt, húsafriðunarsjóður fær 155 millj. kr. í tímabundna hækkun, þ.e. það er þá viðbót við það sem var í frumvarpinu fyrir húsafriðunarsjóð. Á sama tíma og þetta gerist fær húsasafn Þjóðminjasafnsins 70 millj. kr. í frumvarpinu og fjárlaganefnd hefur ekki gert neina tillögu um hækkun á þeirri upphæð.

Mér er kunnugt um það, hæstv. forseti, að Þjóðminjasafnið hefur reiknað út fjármagnsþörf húsasafnsins til næstu ára og fjármagnsþörfin er reiknuð út á þann hátt að gert er ráð fyrir að viðhald þessara húsa sé u.þ.b. 4% af stofnverði þeirra. Hér er því verið að tala um áætlun sem gildir til 2010. Þetta er þá þriggja ára áætlun og ef þörfin sem fagmenn gera ráð fyrir að sé til staðar á næsta ári, 2008, er skoðuð kemur í ljós að hún er um 130 millj. kr. Til þess að standa straum af þeirri þörf fá fagmennirnir í húsasafni Þjóðminjasafnsins einungis 70 milljónir, þ.e. ríflega helminginn af því sem þörfin er.

Hér er um að ræða verulegar gersemar, miklar gersemar, við erum að tala um torfbæina okkar, Arngrímsstofu í Svarfaðardal, Assistentahúsið á Eyrarbakka, Burstarfell í Vopnafirði, Galtastaði í Hróarstungu, Glaumbæ í Skagafirði, Grafarkirkju í Skagafirði, Grenjaðarstað í Aðaldal, Grænavatn í Mývatnssveit, Hóla í Eyjafirði, Hraunskirkju í Dýrafirði, Húsið á Eyrarbakka, Keldur á Rangárvöllum, Kirkjuhvammskirkju í Miðfirði, Laufás í Eyjafirði, Nesstofu á Seltjarnarnesi, Bænahúsið á Núpsstað, Pakkhúsið á Hofsósi, Reykholtskirkju í Borgarfirði, Saurbæjarkirkju í Eyjafirði — ég tíni þetta af handahófi út úr stórum lista — Stóru-Akra í Skagafirði, Teigarhorn í Berufirði og Viktoríuhús í Vigur, vindmylluna í Vigur, Víðimýrarkirkju í Skagafirði og Þverá í Laxárdal. Þetta eru bara nokkur dæmi um húsin í húsasafni Þjóðminjasafnsins.

Mér finnst, virðulegur forseti, að Alþingi Íslendinga eigi að sjá sóma sinn í því að láta þetta safn, þetta stóra og mikla safn sem Þjóðminjasafnið hefur í vörslu sinni og þjóðminjavörður og okkar færustu sérfræðingar hafa metið að séu dýrmætustu húsin sem þurft hefur að bjarga frá skemmdum og eru í stöðugri endurbyggingu og viðhaldi, að þetta safn og þetta starf fái það fé sem þörf er fyrir. Þegar fjármunirnir eru svo ríflegir eins og raun ber vitni að við getum látið einkafyrirtæki á borð við Fornleifastofnun Íslands hafa 25 millj. kr. til ýmissa verkefna í fornleifavörslu á fjárlögum næsta árs þá getum við líka gert betur við húsasafn Þjóðminjasafnsins en gert er hér. Ég skil ekki þá áráttu hv. stjórnarþingmanna að vera miklu örlátari við einkaaðila vítt og breitt um landið og byggðir landsins, hvort sem það er hér í þéttbýlinu eða úti um sveitir landsins, en skera við nögl það sem flaggskipin okkar fá, eins og Þjóðminjasafnið og ég var búin að tala um Listasafnið og Þjóðleikhúsið. Ég segi því enn og aftur að stofnanirnar okkar, flaggskipin sem bera uppi menningararf þjóðarinnar og varðveita hann og tryggja að hann verði áfram til, eiga betra skilið en þær sjá hér á spilum fjárlaganefndar í fjárlögum fyrir árið 2008.

Varðandi menntamálaráðuneytið þá nefni ég framhaldsskólana sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sú sem hér stendur og hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir og Jón Bjarnason, leggja fram tillögur um, og þá er ég að tala um framlög til listgreinakennslu í framhaldsskólum. Við höfum breytt tölum í þessum tillögum, gerum ráð fyrir að 50 milljónir nægi til að gera átak í listgreinakennslu í framhaldsskólum. Við teljum líka að 70 milljónir fari langt til að gera það sem gera þarf til að tryggja framhaldsnám í tónlist sem að okkar mati á að vera á ábyrgð menntamálaráðuneytisins og leggjum því til að þessar tillögur á þskj. 466 fái jákvæða umfjöllun og afgreiðslu á hv. Alþingi.

Að lokum nefni ég stofnanir umhverfisráðuneytisins. Í nýjum tillögum frá meiri hlutanum eru reyndar gerðar nokkrar breytingar á fjárlagaliðum umhverfisráðuneytisins og það er vel. Þær breytingar eru þó ekki til þeirra verkefna sem ég hefði kannski helst viljað sjá. Ráðuneytið fær til aðalskrifstofu 5 millj. kr. vegna innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins sem við vorum að ganga frá í utanríkismálanefnd og á Alþingi fyrir örfáum dögum. Það er eðlilegt að ráðuneytið þurfi einhverja fjármuni til þess að innleiða þá miklu tilskipun og koma í kring því sem hún leggur okkur á herðar.

Síðan fá ákveðin verkefni stuðning, Skógræktarfélag Íslands fær tímabundið framlag vegna skógræktarsvæðis sem á að opna við þjóðleiðir landsins. Ég set stórt spurningarmerki við svona fjárveitingar og spyr hv. fjárlaganefnd hvort hér sé verið að veita fjármuni í eitthvað sem búið er að samþykkja skipulag fyrir eða hvort þau skógræktarverkefni sem hér er gert ráð fyrir, að opna ný skógræktarsvæði við þjóðleiðir landsins, séu utan skipulags.

Hér er líka verið að veita fjármuni til Náttúrufræðaseturs á Ólafsfirði. Veitt er 15 millj. kr. framlag til að standa straum af framkvæmd Kyoto-bókunarinnar á Íslandi og hefði mátt sjá það fyrir, sú beiðni hefði mátt vera í fjárlagafrumvarpinu strax og þyrfti ekki að koma inn við 3. umr. Allt í einu sjá menn að brýnt sé að setja upp svokallaða Landsskrifstofu um loftslagsvæna þróunaraðstoð sem ríkisstjórnin hafi samþykkt að setja á fót og sé nauðsynleg fyrir framkvæmd laga um losun gróðurhúsalofttegunda sem við samþykktum í fyrra, auk þess sem slík skrifstofa væri lykilaðgerð til að liðka fyrir virku framlagi Íslands til þróunaraðstoðar á sviði loftslagsmála. En eins og við vitum ætlar ríkisstjórnin ekki að gera neitt hér heima varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda heldur einungis í þróunarríkjunum og það þarf að standa straum af kostnaði við það allt saman.

Umhverfisstofnun fær 15 millj. kr. tímabundið framlag vegna innleiðingar vatnatilskipunarinnar eins og nefnt var áðan og ég kvarta ekki undan því, það er nauðsynlegt að Umhverfisstofnun fái viðurkenningu á því mikla starfi sem er fólgið í því að innleiða gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins. Þar hefur oft skort á en í þessu tilfelli fær stofnunin 15 milljónir.

Umhverfisstofnun fær ekki krónu til aukinnar landvörslu. Umhverfisstofnun segir í bréfi sem barst til umhverfisnefndar að beiðni nefndarinnar að stofnunin hafi sent frá sér tillögu til fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins þar sem óskað var eftir 25 millj. kr. til að styrkja landvörslu á friðlýstum svæðum, til að viðhalda og endurnýja stíga og mannvirki á þessum svæðum. Í þessum fjárlagatillögum stofnunarinnar er talað um að aukinn ferðamannastraumur hafi aukið mikið álagið á náttúru Íslands en því miður hafi fjárhæðir ekki aukist í samræmi við það og að Umhverfisstofnun telji afar brýnt að þessi liður verði styrktur. Viti menn, umhverfisnefnd tók undir þetta í áliti sínu til fjárlaganefndar. Og hvað gerir fjárlaganefnd? Nákvæmlega það sama og hún gerði við ákall menntamálanefndar sem bað um fjármuni fyrir Listasafn Íslands, fjárlaganefnd hunsar þessa beiðni meiri hluta umhverfisnefndar. Ég minni á að umhverfisnefnd var einhuga í álitinu til fjárlaganefndar, við töluðum þar um þrjár stofnanir sem þyrftu aukna fjármuni, þyrftu aukna athygli í ákveðin verkefni en ekki var orðið við því.

Við höfum því afráðið, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að leggja til að þessar 25 millj. kr. komi til landvörslu og viðurkennd verði þessi brýna þörf Umhverfisstofnunar og leggjum fram tillögu um það á þskj. 467. Á sama þingskjali gerum við ráð fyrir 20 millj. kr. auknum fjárveitingum til Náttúrufræðistofnunar Íslands og sömuleiðis að sértekjur þeirrar stofnunar verði færðar niður um 20 milljónir en það er alvarlegt ákall frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem barst til umhverfisnefndar í bréfi dags. 29. október sl.. Þar óskar Náttúrufræðistofnun einungis eftir því að leitað verði leiða til að halda stofnuninni á floti og til að koma starfsemi hennar á fastan fjárhagslegan grunn til framtíðar. Ég held að mér hafi orðið fótaskortur á tungunni við 2. umr. fjárlaga en þá taldi ég að bæta ætti Náttúrufræðistofnun Íslands hallann á yfirstandandi ári í fjáraukalögum. Hvað kom svo á daginn? Ónei, það var ekki gert. Aldrei þessu vant fékk Náttúrufræðistofnun Íslands ekki bættan upp hallann sem er þó vani að gera í fjáraukalögum á hverju ári, heldur fékk hún einungis 3 milljónir í eitthvert tiltekið verkefni og aðrar 3 milljónir til að kaupa Yaris, sem varð nú tilefni þess að við brostum a.m.k. út í annað í andsvörum við 2. umr.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur því ekki verið komið á fastan fjárhagslegan grunn til framtíðar við þessa fjárlagagerð og það er miður. Að mínu mati er fullkomlega óviðunandi og óeðlilegt að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli ævinlega vera gert það svona erfitt að standa undir þeim lögboðnu verkefnum sem við höfum lagt henni á herðar og hún skuli stöðugt vera í eltingaleik við einhvers konar sértekjur sem eru ofáætlaðar í hverju einasta fjárlagafrumvarpi. Ég tel því að ákallið sem Náttúrufræðistofnun sendir umhverfisnefnd í bréfi sínu sem ég hef hér fyrir framan mig, verði að fá hljómgrunn núna. Í því bréfi er megináhersla lögð á að fá sértekjuáætlunina lækkaða, reyndar um 30 millj. kr., samhliða styrkingu á rekstrargrunni með jafnháu viðbótarframlagi en þar sem felld var tillaga frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um 45 millj. kr., ef ég man rétt, við 2. umr. getum við ekki reglnanna vegna lagt meira til en 20 millj. kr. framlag og lækkun sértekna um 20 milljónir. Þetta er það besta sem við, þessir stjórnarandstöðuþingmenn, getum gert til að sýna að við höfum skilning á því hlutverki sem Náttúrufræðistofnun Íslands þarf að rækja og því ástandi sem hún stendur frammi fyrir í fjármálum sínum.

Mér þykir mjög miður að ár eftir ár skuli það gerast að fjárlaganefnd skelli skollaeyrum og skirrist við að leiðrétta fjárhagsstöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Á sama tíma er verið að setja upp gríðarlega volduga stofnun, Vatnajökulsþjóðgarð, þar sem jökulhetta Vatnajökuls og kraginn í kring að hluta til er nú orðinn sjálfstæður þjóðgarður. Við vitum vel að þar eru gríðarleg tækifæri fyrir rannsóknir og störf Náttúrufræðistofnunar að eflingu þess þjóðgarðs eiga eftir að verða mikil, vona ég, en þau verða það ekki nema við áætlum stofnuninni fjármuni til að standa straum af þeim rannsóknum og því hlutverki sem hún hefur að gegna varðandi skráningu og kortlagningu lífríkis landsins.

Hæstv. forseti. Undir eðlilegum kringumstæðum væri hægt að ræða hér lengur og eflaust flytja snarpari ræður og jafnvel styttri ef maður væri ekki orðinn svona syfjaður og þreyttur en ég læt hér máli mínu lokið við 3. umr. fjárlaga.