146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

framkvæmdir við flughlað á Akureyrarflugvelli.

[10:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Flugstarfsemi lýtur mjög ströngum lögum og reglum varðandi áætlanagerð. Það á við um öll flugfélög sem fljúga til og frá landinu. Mér er kunnugt um að Icelandair hefur sérstaka neyðaráætlun innan dyra hjá sér ef svo ber við að Keflavíkurflugvöllur loki sérstaklega, það er þá til viðbragðsplan af hálfu fyrirtækisins hvernig þeir bregðast við því.

Mér þykir leitt ef hv. þingmaður, virðulegur forseti, skildi ekki orð mín hér áðan af því að ég held að þau hafi verið nokkuð skýr. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem þarf að fara í ef fjármagn fæst til. Það fara 200 milljónir í flugvallarstarfsemi á þessu ári, þ.e. fyrir utan þessa alþjóðavelli, 200 milljónir, það er rétt til að standa undir rekstri. Það eru engar nýframkvæmdir og það er ekkert stórt viðhald í gangi. Þetta er bara staðan sem er grafalvarleg. Það eru milljarðaverkefni sem bíða okkar út um allt land. Það eru mörg jarðgöng ef það er talið saman. Þessi mál eru í skoðun (Forseti hringir.) eins og fram hefur komið hjá ráðuneytinu. Ég mun gera mitt besta til þess að reyna að fá aukið fé í málaflokkinn með hvaða leiðum sem mögulegt er að fara.