151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, en ég verð að gera athugasemdir við orðalagið sem er villandi. Það er ekki rétt að segja að við séum að fá færri skammta en við höfðum gert ráð fyrir. Eins og ég hef áður vikið að hér í svörum mínum og í framsögunni liggja fyrir samningar um að við eigum nægilega marga skammta fyrir Íslendinga og þá sem við þurfum að bólusetja. Í mínu máli hef ég alltaf haft ákveðinn fyrirvara vegna óvissunnar. Hún er eitthvað sem við verðum bara að horfast í augu við og höfum þurft að horfast í augu við allan tímann. Við erum smám saman að fá upplýsingar um með hvaða hætti efnin verða afhent til Íslands og við erum að fá á hreint fyrstu upplýsingar sem lúta að dreifingunni til Íslands frá einum framleiðanda af þessum sex sem við erum í samskiptum við.

Ég segi, virðulegur forseti: Allur heimurinn er óþolinmóður, allur heimurinn er óþreyjufullur. En þarna er óvissa sem við verðum að hafa úthald og seiglu gagnvart. Hv. þingmaður veit það eins og ég að það er óvinnandi vegur að gera áætlanir sem halda inn í svo mikið óvissutímabil. Hins vegar vitum við og getum fullyrt það með vissu að árið 2021 verður árið þar sem sóttvarnaráðstafanir munu heyra sögunni til vegna þess að við munum ná utan um Covid-19 með bólusetningum. Á hvaða hraða það gerist nákvæmlega og í hvaða samspili bólusetningar og sóttvarnaráðstafanir verða, til að geta skorið úr um það þurfum við frekari upplýsingar. (Forseti hringir.) Og það er viðfangsefni allra ríkja heims að hafa þolinmæði gagnvart því.