151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég held að ef við hefðum haft nægan tíma til að ræða þetta mál hefði þetta atriði verið aðalatriðið og það sem við hefðum aðallega verið að rökræða um. En þökk sé því hvernig meiri hlutinn er búinn að klúðra málinu aftur, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór ágætlega yfir í dag og í gær — eða hvort það var eftir miðnætti, ég man það ekki — þá erum við ekki hér til þess að ræða aðalatriðið, sem er það hvað veldur ákvörðunum foreldra sem þurfa að skipta fæðingarorlofi sem hægt er að skipta á milli þeirra. Það eru fjármálin. Það eru hlutir eins og þessi. Ef við lögum þetta má vel vera að með tímanum lagist hlutirnir nógu mikið í menningu okkar, í atvinnulífinu, þannig að við getum leyft okkur að hafa skiptinguna alveg frjálsa, það má vera. En fyrst þurfum við að laga þessi grundvallaratriði. Hér er það í boði. Við getum lagað þetta hér og nú. Þetta er ekki það eina sem þarf að laga, það er fleira, enda vona ég að við ræðum þetta aftur á nýju ári. (Forseti hringir.) En mér finnst þessi atkvæðagreiðsla og umræðuleysi (Forseti hringir.) um þennan þátt vera einkenni þess hvað við höfum fengið lítinn tíma til að ræða þetta mál í þetta sinn.