Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og verð að viðurkenna að það er svolítið gaman að eiga samtal við hv. þingmann. Ég er enn þá að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður sé hægri eða vinstri maður því að í aðra röndina talar hann eins og hann sé mikill vinstri maður og hv. þingmaður hafði óbeit á því hér áðan að fólk væri að greiða fjármagnstekjuskatt og fjármagnsskatturinn hefði hreinlega hækkað. En svo kom hv. þingmaður inn á það hvað það væri jákvætt að við erum búin að ná að örva efnahagslífið og atvinnulífið og hvað það væri jákvætt fyrir allan íslenskan almenning að þessar skattgreiðslur skili sér til hins opinbera þar sem við erum einmitt að sanna það hvað við erum mikið velferðarríki. 60% allra útgjalda ríkissjóðs er einmitt varið til velferðarmála og þar getum við hv. þingmaður sameinast um ýmsar góðar hugmyndir.

En ég ætla að spyrja hv. þingmann aðeins út í tillögurnar hans. Hv. þingmaður leggur til að það verði felldar brott allar heimildir til sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Þá velti ég fyrir mér, vegna þess að hv. þingmaður sagði líka áðan að það ríkti engin samkeppni á fjármálamarkaði: Er það þá sýn Flokks fólksins að það sé best að ríkið haldi á eignarhlutum í öllum fjármálafyrirtækjunum? Hvernig ætlar hv. þingmaður þá að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði? Hvernig talar þetta saman? Fyrir mér gerir það það ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt verið að leggja til að ríkið þurfi að losa um þetta fjármagn sem liggur í fjármálafyrirtækjum til að nýta það í góðar innviðafjárfestingar eins og spítala eða vegi eða eitthvað sem skiptir alla íbúa þessa lands miklu máli. Hv. þingmaður kemur líka með tillögu um að veiðigjaldið verði hækkað um 7 milljarða. Mér leikur forvitni á að vita: Hvernig reiknar hv. þingmaður það út? Af hverju 7 milljarðar? Af hverju ekki 5 eða 9? Hvaðan kemur þessi tala? Ég kemst ekki yfir meira, við tökum það samtal síðar.