136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

samvinna við sveitarfélögin um atvinnuuppbyggingu.

[10:42]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður taldi að þessi liður yrði til gagns og vonaði það. Ég er viss um að svo verður, og það á einnig við um aðra liði í þessari ágætu ákvörðun ríkisstjórnar til stuðnings atvinnulífi í landinu. Það er ljóst að svo verður.

Hv. þingmaður spyr um aðrar stórframkvæmdir, sem heyra að vísu undir annað ráðuneyti, en mér er ljúft og skylt að svara því sem þingmaður. Ég vitna þá til þess sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt á opinberum vettvangi að ekki er verið að slá neitt af þar. Talað er um hugsanlegar framkvæmdir við uppbyggingu álvera hvort sem það er fyrir norðan eða í Helguvík, það er allt á fullri ferð. Óskandi væri að jafnmikil ferð væri á þeim fyrirtækjum sem við þurfum að semja við. Þau hafa orðið illa útiliggjandi í heimskreppunni eins og aðrir. Má t.d. vitna í Morgunblaðið í dag þar sem sýnt er hvað álverð hefur lækkað. Það er því ekki neitt hér hjá okkur sem veldur töf. Það eru aðstæður hjá fyrirtækjunum. Varðandi netþjónabúin held ég að það sé allt saman á fullri ferð og þau lög sem samþykkt voru eiga ekki að hafa hamlandi áhrif á það.