148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir góða ræðu. Ég hjó eftir því í ræðunni að þingmaðurinn kvartaði yfir að ekki væri greinargerð með tillögunni og ég hjó einmitt eftir því þegar ég las tillöguna. Við erum álíka ungir hérna á þingi og ég nota mikið greinargerðarlestur til þess að glöggva mig á bæði frumvörpum og þingsályktunartillögum.

Þegar lög um opinber fjármál voru sett árið 2015 eða svo, og fjármálaáætlun er undir þeim hatti, þá hef ég verið að spá í eitt og mig langar að spyrja þingmanninn út í það. Nú hefur það verið mjög erfitt síðustu árin að finna fjármagn til uppbyggingar innviða. Við erum að tala um samgöngur sem eru komnar langt fram yfir síðasta söludag. Við erum að tala um heilbrigðismál sem eru ekki á eins góðum stað og við viljum, raforkumál vítt og breitt um landið og svo mætti áfram telja, löggæsluna og annað slíkt.

Getur þingmaðurinn kannski túlkað það fyrir mig hvort hann lesi út úr þessari fjármálastefnu að slíkt fari eitthvað mikið að breytast samkvæmt opinberum fjármálum? Nú talar samgönguráðherra um að handan við hornið sé fullt af milljónum sem koma úr bönkum, en það er ekki í hendi enn þá. Ég kasta því þessari spurningu til þingmannsins.