149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Mig langar undir liðnum störf þingsins til að ræða raforkumál. Það er mikið rætt um orkupakka. Það er mikið rætt um þriðja orkupakkann en það sem mig langar frekar að ræða eru orkupakkar eitt og tvö og hver reynslan hefur verið af þeim reglum sem við innleiddum við lagabreytingarnar 2003 og 2005. Við eigum margt ógert í því að klára það verk sem við hófum þá og kannski er rétt að ræða það áður en við förum að innleiða fleiri orkupakka.

Megintilgangur þeirra breytinga sem þá voru innleiddar var að aðskilja framleiðslu á rafmagni og flutning á rafmagni. Það gerðum við og við bjuggum til kerfi utan um það með þeim hætti að við stofnuðum Landsnet og tókum meginflutningskerfið út úr Landsvirkjun, stofnuðum það félag. Síðan eigum við hér dreifiveitur, Rarik er einna stærst þeirra, og fleiri dreifiveitur eigum við. Þessar dreifiveitur og Landsnet starfa undir svokölluðum tekjumörkum og eru þar af leiðandi með gjaldskrár sem eru ákveðnar með ákveðnu skipulagi.

Reynslan af þessum breytingum hefur m.a. birst í því að þróun á flutningskostnaði rafmagns á svæði Rariks hefur frá þessum árum, 2005–2017, verið með þeim hætti að meðan vísitalan hefur hækkað um 82,5% hefur dreifikostnaður í þéttbýli á svæðum Rariks hækkað um 44% en dreifikostnaður hjá Rarik í dreifbýli hefur hækkað um 102%. Og hjá Orkubúi Vestfjarða um 117%.

Áskilnaður er í þessum lögum um að jafna þennan kostnað úr ríkissjóði og hefur það framlag úr ríkissjóði hækkað á þessum tíma um 300%. Það nær samt ekki markmiðum laganna og þarf væntanlega að hækka það um einar 800–900 milljónir til viðbótar, einungis til að ná markmiðum laganna.

Ég tel að það verði að rýna þetta fyrirkomulag og stokka upp þennan kapal á nýjan leik og sækja fram með nýjar lausnir, klára að losa eignarhald þessara mikilvægu félaga sem dreifa rafmagni og ná betri árangri (Forseti hringir.) en við höfum náð hingað til.