Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:39]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Við erum hér í þetta sinn með fjárlagafrumvarp sem ég held að sé sanngjarnt að segja að hafi meiri þýðingu en oft áður vegna þess í hvaða umhverfi við erum, umhverfi verðbólgu innan lands en líka utan. Við glímum við miklar og þungar vaxtahækkanir sem eru þungt högg fyrir heimilin, misþungt en fyrir þau sem þessar hækkanir hitta fyrir er höggið verulega þungt, og við erum að vinna fjárlög í aðdraganda kjarasamninga þannig að ég held að það sé óumdeilt að þýðingin sé meiri en oft áður. Mig langaði til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar aðeins út í ástæður verðbólgunnar. Við þekkjum þann veruleika. Í allt sumar og í allt haust hafa dunið á heimilunum vaxtahækkanir á húsnæðislánum. Hefði verið hægt að leggja fram í þessu frumvarpi skýrari aðgerðir, skýrari svör hvað verðbólguna varðar? Seðlabankastjóri hefur sjálfur lýst því þannig að þegar ríkisstjórnin axlar ekki sína ábyrgð um að halda aftur af verðbólgu þá gerist það að Seðlabanki Íslands hækkar vexti, það sé sirka myndin og kannski að viðbættum ferðum til Tenerife. Ég hef mjög miklar áhyggjur af unga fólkinu í þessu sambandi, fólkinu sem fór inn á markaðinn undir orðum hæstv. fjármálaráðherra um að við værum að renna í lágvaxtaskeið. Spurningin mín lýtur að þessu: Hvar eru aðgerðirnar í þessu frumvarpi til að ná fram aðhaldi og tempra verðbólgu og síðan viðbrögð við vaxtahækkunum?