Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel að við séum að spila með peningastefnunni með þessu frumvarpi, sem er mikilvægt eins og hv. þingmaður nefndi, en ég tel reyndar að hvert fjárlagafrumvarp sé afar mikilvægt á hverjum tíma. Jú, kannski þegar við erum að semja getur það auðvitað skipt talsverðu máli. Við getum í mörgum tilfellum séð hverju við erum að reyna að mæta með því að auka við bótakerfið okkar þar sem við erum að stíga lengra en við höfum gert áður. Það er verið að koma til móts við fólk í gegnum það fyrst og fremst. Varðandi unga fólkið okkar og íbúðakaupin þá ætla ég ekki að svara fyrir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði einhvern tímann, hann verður að gera það. Við búum hins vegar í landi þar sem okkur á öllum að vera ljóst að 1% vextir eru ekki og hafa aldrei verið raunin. Það er samt kerfi sem einhverjir fara inn í á sínum tíma þegar þeir kaupa, það er sannarlega þannig. Fólk stendur væntanlega margt hvert í erfiðleikum núna og ég tel að við getum þurft að horfa til þess, t.d. með auknum greiðslum vaxtabóta eða einhverju slíku. Til þess gæti þurft að koma fyrir tiltekinn hóp ef verðbólgan fer ekki að láta undan. Hún er sem betur fer að síga þannig að ég tel að við séum á réttri leið og þetta komi kannski til með að ganga hraðar yfir en við héldum. En þetta er eitthvað sem við þurfum að vera með mjög vakandi auga yfir og ég tel að ríkisstjórnin sé með opin augu í því hvort bregðast þurfi við á einhverjum tímapunkti. En eins og staðan er akkúrat núna hefur komið ítrekað fram að heilt yfir er staða heimilanna góð. (Forseti hringir.) Það hefur komið fram hjá seðlabankastjóra og það hefur líka komið víða annars staðar fram. En það eru auðvitað, eins og við þekkjum, einstaklingar sem eiga erfitt.