Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég kynntist hv. þingmanni fyrst á síðasta kjörtímabili þegar hún kom inn í fjárlaganefnd í tengslum við tekjustofna sveitarfélaganna, var með mikla og góða umræðu um það í samfélaginu. Mig langaði aðeins til að fræðast af hv. þingmanni um þá tilfinningu sem ég hef haft á mínum árum í fjárlaganefnd hvað varðar einmitt tekjustofna sveitarfélaga og fjárhag þeirra. Mér líður eins og ríkið, ríkisvaldið, Alþingi, ríkisstjórnin, haldi sveitarfélögunum í raun í ákveðinni fátæktargildru. Verkefni sveitarfélaganna eru vanfjármögnuð og ríkisstjórnin stjórnar tekjustofnunum á þann hátt að það vantar alltaf fjármagn. Það þarf því að skera niður þjónustu, skera niður fjárfestingar og alls konar vesen.

Í samhengi við málefni fatlaðra, sem er nýjasta vanfjármagnaða verkefnið, sjáum við tillögur upp á 5 milljarða fyrir næsta ár ofan í þau gögn sem við höfum fengið um að hallinn vegna þessa málaflokks sé 12–13 milljarðar fyrir landið allt. Þetta er enn ein birtingarmynd þess að við erum að glíma við fátæktargildru fyrir sveitarfélögin. Ráðuneytið kemur á fund fjárlaganefndar og kallar þetta útgjaldavandamál.

Ég þarf bara að anda aðeins rólega þegar ég er að reyna að lýsa þessu því að ég hef fengið þessa tilfinningu ítrekað á undanförnum árum. Mig langaði að kasta boltanum aðeins yfir til hv. þingmanns sem er að koma fersk inn í þetta.