Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það sé ekki tilviljun hvernig þessu er háttað, verklaginu í þetta skipti. Ég verð þó að taka fram, eins og ég sagði í ræðu minni hér fyrr, að ég held að að hluta til sé þetta líka komið til vegna þess að hæstv. ríkisstjórn getur einfaldlega ekki komið sér saman um ákveðnar tillögur. Þess vegna þurfa skoðanaskipti að eiga sér stað fyrir framan alþjóð um stöðuna í ákveðnum málaflokkum til að ýfa upp ágreining og skapa pressu. Og fjölmiðlum er þar með einhvern veginn beitt til að skapa pressu inni í fjármálaráðuneyti til að fá fram ákveðin fjárframlög. Auðvitað er alveg eðlilegt að vera með einhverjar málamiðlanir í ríkisstjórn en það er ekki eðlilegt þegar þetta er komið á það stig að því verklagi sem lagt var upp með í lögum um opinber fjármál er ekki fylgt. Fyrir utan að þetta er einfaldlega bara til þess gert já, að halda væntingum í skefjum, að gelda alla gagnrýni sem kemur frá minni hluta og hagsmunaaðilum og mæta svo með nauðsynlegt fjármagn og stilla því upp eins og um einhverja mikla umframgjöf sé að ræða. Þetta gerir það að verkum að við missum alla yfirsýn um hvað raunverulega er verið að gera. Einhverjum kann að finnast þetta eðlilegt í pólitík. Ég held hins vegar að íslenskur almenningur sé orðinn mjög þreyttur á þessum leik. Þetta snýr að grunnkerfunum okkar og staðan er víða þannig, t.d. í heilbrigðiskerfinu, að fólk hefur ekkert húmor fyrir svona verklagi lengur.

Varðandi þessa sértæku liði sem hv. þingmaður talaði um, til að mynda þessa beiðni sem kom inn til fjárlaganefndar, þá átti auðvitað að taka að mestu leyti fyrir þetta á sínum tíma. En það sem ég rek augun í er að við erum að fá beiðnir inn í nefndina til að fjármagna úrræði eins og SÁÁ, Hlaðgerðarkot og Sigurhæðir. Það eru allt úrræði sem ættu að falla undir svokallaða snemmtæka íhlutun undir farsældarlögum ríkisstjórnarinnar en hafa ekki verið fjármögnuð af hendi ríkisstjórnarinnar og eru að koma inn sem neyðarbeiðnir til hv. fjárlaganefndar.