Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir einkar gott og ánægjulegt samstarf í fjárlaganefnd og sér í lagi í þeirri undirnefnd sem við höfum starfað í þar, sem hefur gegnt veigamiklu hlutverki líka, vil ég leyfa mér að nefna. Það sem við höfum talað um í samhengi við verðbólgu er auðvitað að ríkisstjórnin sé aðeins á bremsunni. Við töluðum um það strax í heimsfaraldri að það skipti máli að ríkið tæki sér hlutverk og stöðu í fjárfestingum þegar við horfðum fram á það að aðstæður væru kólna en þær yrðu tímasettar þannig að þær kæmu ekki til framkvæmda þegar hér væri allt að fara upp á við aftur. Mér sýnist að þau varnaðarorð hafi gengið eftir. Ég nefndi í ræðu minni að ég er skoðanasystir hæstv. fjármálaráðherra um mikilvægi hagræðingarinnar. Það eru ýmis verkfæri til um þetta, ekki síst hvernig við beitum fjárfestingum ríkisins og hvenær ríkið hefur sig hægt þegar hlutirnir eru á leiðinni upp aftur.