Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á að leiðrétta hv. þingmann sem sagði að ég hefði fjallað mikið um loftslagsmál í ræðu minni því að ég fjallaði bara um þau, ég fjallaði ekki mikið þau heldur bara um þau. Hv. þingmaður er þarna benda á lykilatriði varðandi það hvernig ríkisstjórnin talar um þessi mál, hún talar eins og allt sé í himnalagi en svo er reyndin allt önnur. Munum við standast Kyoto? Nei. Við féllum á því prófi og við erum væntanlega að greiða rúmlega 800 milljónir í sektir fyrir að hafi ekki staðist skuldbindingar Kyoto og það þrátt fyrir að ríkisstjórnin sem sendi samninganefnd til Kyoto hafi náð að kreista út undanþágu þannig að það var hægt að slá hér upp tveimur álverum í viðbót án þess að það teldist inn í þetta bókhald. Stór hluti af þessari gífurlegu aukningu sem varð var utan bókhalds. Samt runnum við á rassinn með þetta, algerlega. Við getum samt náð markmiðum Parísarsáttmálans. Við erum að verða dálítið sein með það vegna þess að ríkisstjórnin gerir of lítið, allt allt of lítið, og ef hún heldur áfram að vera svona léleg í þrjú ár í viðbót þá er orðið dálítið erfitt að ná þessum markmiðum. Þess vegna er þetta alvarleg staða, eins og ég byrjaði ræðu mína á að segja. En hér höfum við líka allt að vinna. Tökum bílaleigurnar sem dæmi. Af hverju er endalaust verið að búa til einhver veik ívilnanakerfi til að hjálpa þeim að komast yfir í rafmagnsbíl, vegna þess að það skiptir svo miklu máli fyrir eftirmarkað á bílum? Af hverju getur Ísland ekki farið að markaðssetja sig sem landið þar sem þú kemur ekki bara til að sjá hreina og fallega náttúru heldur þar sem þú keyrir bara um á hreinni og grænni orku? (Forseti hringir.) Að allir bílaleigubílar á Íslandi verði rafmagnsbílar, (Forseti hringir.) Bara banna innflutning á bensínbílum (Forseti hringir.) og hjálpa bílaleigunum að komast yfir þann hjalla.