Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig alveg á því hvert hv. þingmaður er að fara og mér finnst það sem hann er að lýsa vera einkenni stefnuleysis, þegar fólk er ekki með það á hreinu hvort þetta séu meiri útgjöld eða minni eða hvar þau jafnvel bera niður og það er ekki hægt að fá skýr svör um það og jafnvel ekki umfjöllun. Það eru að koma inn risa hlunkar af tillögum á milli umræðna og fjárlaganefnd fær ekki einu sinni svigrúm til þess að rýna það ofan í kjölinn. Þetta er auðvitað fyrst og fremst merki um stefnuleysi. Þetta er ferð án fyrirheits hjá ríkisstjórninni. Það vantar þessi markmið. Ég átti samtal við annan þingmann áðan, Gísla Rafn Ólafsson, um þetta samtal. Getum við komið okkur saman um að við erum sammála um að við viljum sterkt velferðarkerfi, öflugt heilbrigðiskerfi? Við þurfum að manna það. Eigum við að tala okkur saman niður á sameiginlegar tillögur, sameiginlega fleti, af því að þetta er sameiginlegt verkefni? En það er ekki hægt og það er af því að þau eru hrædd við að setjast niður og sýna fram á það kannski að stefnan er ekki nægilega skýr. Alla vega er það þannig að þessi lýsing hv. þingmanns ber vott um þetta stefnuleysi, eins og ég segi.

Hins vegar vil ég undirstrika það að ég hef miklar áhyggjur af því að halli ríkissjóðs muni aukast á milli umræðna og það er ekkert verið að reyna að vinna að því hvernig við ætlum að minnka þennan halla. Mér finnst það ábyrgðarleysi að þessi tekjuauki sem hefur fengist á liðnum misserum er ekki notaður í það að greiða niður skuldir.