135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um tekjuöflun til að standa straum af kostnaði við tillögur sem við flytjum í þessu frumvarpi, einkum til að rétta hlut velferðarþjónustunnar. Tillagan gengur út á að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% í 14%, en þó svo að 140 þús. kr. frítekjumark gildi. Það þýðir að allir smásparendur yrðu undanþegnir skatti. 90% þeirra sem nú borga fjármagnstekjuskatt yrðu undanþegin þessum skatti. Þetta er réttlætismál og menn spyrja hvers vegna launafólk eigi að greiða tæplega 36% skatt á meðan ríkasta fólkið borgar 10% skatt. Þá fara auðmennirnir úr landi, segja margir. Ég get fullvissað Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna, sem eru haldin þessum mikla og takmarkalausa auðmannaótta, að hann er ástæðulaus. Á Íslandi er fjármagnstekjuskattur lægri en (Forseti hringir.) gerist á byggðu bóli. Þetta er mikið réttlætismál.