151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

jólakveðjur.

[22:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna vil ég þakka forseta og varaforsetum fyrir samstarfið í vetur, sérstaklega við þingflokksformenn, og hlý orð í garð þingmanna. Þá vil ég sérstaklega þakka starfsfólki þingsins fyrir þá ómetanlegu aðstoð við þingmenn sem við þingmenn höfum notið á þessum erfiðu tímum, sérstaklega álagspunktum sem eru margir og oft og tíðum illa fyrirsjáanlegir. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru verða flest okkar af þeirri nánd við ástvini og ættingja sem við eigum að venjast á þessum árstíma en þess heldur skulum við hugsa vel hver til annars og hlakka til þess að hittast, takast í hendur, faðmast og almennt vera í kringum hvert annað. Komandi áskoranir vegna heimsfaraldursins verða vafalaust umfangsmestu verkefni Alþingis á komandi misserum. Þegar þingmenn koma aftur saman að loknu jólahléi verða þeir vonandi endurnærðir og í stakk búnir til að takast á við þær. Munum þá öll að þótt við höfum ólíkar skoðanir á því hver sé rétta leiðin eða jafnvel hvar við séum stödd, erum við þó öll í sama leiðangrinum. Sé það ekki ljóst nú tel ég fullvíst að svo verði þegar allt er yfir gengið.

Ég ítreka þakkir til forseta og starfsfólks og óska þeim og þingheimi gleðilegra jóla og farsæls komandi nýs árs. Ég bið þingmenn um að taka undir með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]