Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera störf þingsins að mínu umtalsefni hér undir liðnum störf þingsins. Það hryggði mig mikið í gær sú orðræða sem fór fram í þessum ræðustól hér og ég hef áður komið inn á það undir þessum lið að kurteisi — að við séum vissar fyrirmyndir úr þessum háa ræðustóli hér, að við séum ekki með orðræðu sem leiðist kannski og smitast oft út í einelti og annað slíkt. Við þurfum að láta af því.

En svo störf þingsins geti farið eðlilega fram og við getum starfað eðlilega innan þingsins verður líka traust og trúnaður að ríkja hér. Meðferð trúnaðarupplýsinga hefur líka verið mikið í umræðunni og hún hefur ekki alltaf farið vel hér. Þess er getið á mörgum stöðum í regluverkinu, bæði í lögum og reglum sem við setjum okkur sjálf hérna, þ.e. starfsreglur fastanefnda Alþingis, þingskapalög, almenn hegningarlög, siðareglur Alþingis og fleira mætti telja — við þurfum að geta trúað því og treyst að eftir öllum þessum lögum og reglum sé farið og þegar einhver áhöld eru um annað þurfum við að fá úr því skorið.

Ég óska eftir því að við fáum það á hreint hvernig við förum með slíkt hér og ef það eru einhver áhöld um hvort farið hafi verið eftir þessum reglum þá þarf hv. forsætisnefnd að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar það hefur og hvernig úr því verður unnið.